20.10.2016 | 12:57

Samningur um kaup á 69% hlut í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni

Samkomulag hefur náðst um kaup á 69% hlut í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. Seljendur eru Eignarhaldsfélagið Þorgerður ehf., F-13 ehf og Lind ehf. Fyrir kaupendum fara framtakssjóðirnir Akur fjárfestingar slhf. og Horn III slhf. ásamt hópi einkafjárfesta.

Ölgerðin Egill Skallagrímsson er afar spennandi fyrirtæki og það er með mikilli tilhlökkun sem við bætumst í hóp eigenda félagsins. Ölgerðin, sem er í hópi öflugustu fyrirtækja landsins, hefur alla burði til að vaxa frekar og nýta þau sóknartækifæri sem til staðar eru á markaði,“ segir Hermann Már Þórisson, framkvæmdastjóri Horns III.

Núverandi stjórnarformaður Ölgerðarinnar, Októ Einarsson og forstjóri félagsins, Andri Þór Guðmundsson eru ekki þátttakendur í sölunni og munu því áfram eiga stærsta einstaka hlutinn í félaginu í gegnum félag sitt, OA Eignarhaldsfélag ehf. Í kjölfar viðskiptanna stefna eigendur að því að auka hlutafé Ölgerðarinnar til að styðja við innri vaxtaráform félagsins.

Við fögnum nýjum aðilum í eigendahóp Ölgerðarinnar. Þetta er 103 ára gamalt fyrirtæki sem er vel rekið og skipar sérstakan sess í hugum landsmanna, með sterk vörumerki og mikil tækifæri, ekki síst á sviði útflutnings,“ segir Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar.

Auður I, fagfjárfestasjóður í rekstri Virðingar, hefur farið fyrir stærsta hluthafa Ölgerðarinnar frá því árið 2010 þegar Eignarhaldsfélagið Þorgerður ehf. keypti hlut í félaginu. Félagið hefur nú selt allan sinn eignarhlut.

Auður I fjárfestingasjóður fór fyrir hópi fjárfesta sem keyptu hlut í Ölgerðinni fyrir sex árum en yfirlýst markmið frá upphafi var að selja eignarhlutinn á þessum tíma. Félagið hefur, á undanförnum árum, vaxið og styrkst mikið og ávöxtun af fjárfestingunni fyrir Auðar I sjóðinn og meðfjárfesta okkar hefur verið afar góð.  Við göngum stolt frá þessu verkefni,“ segir Margit Robertet, framkvæmdastjóri framtakssjóðasviðs Virðingar.

 

Fyrirtækjaráðgjöf Virðingar hafði umsjón með söluferli Ölgerðarinnar fyrir hönd hluthafa og var ráðgjafi seljenda. BBA Legal veitti seljendum lögfræðiráðgjöf í tengslum við viðskiptin.

Ráðgjafar kaupendahópsins í fyrrgreindu söluferli og í viðskiptunum voru Íslandsbanki og Lagahvoll.

Kaupsamningur sem nú hefur verið undirritaður er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Til baka