16.11.2016 | 13:01

Taðreyktur Surtur hlaut gullverðlaun í einni virtustu bjórkeppni heims

Bjórarnir frá Borg brugghús halda áfram að sópa að sér alþjóðlegum verðlaunum. Nú á dögunum voru það Surtur nr. 30 og Gréta nr.27 sem lentu á palli í European Beer Star verðlaununum sem haldin voru í Nurnberg á miðvikudagskvöldið 9.nóvember. Alls voru 2103 bjórar frá 44 löndum skráðir í keppnina í ár, sem haldin er af Samtökum óháðra brugghúsa í Bæjaralandi og Samtökum óháðra brugghúsa í Þýskalandi (Private brauereien Bayern og Private brauereien Deutschland) og er þar af leiðandi talin ein sú allra virtasta í heiminum. Mörg af stærstu og virtustu brugghúsum heims taka þátt í European Beer Star, enda eftirstóknin eftir stjörnunni mikil. “Með því að veita European Beer Star verðlaunin viljum við auðkenna bjóra sem eru sérstakir, með skýr karaktereinkenni og skara fram úr í bragði og gæðum” segir Dr. Werner Glossner, forstjóri Samtaka óháðtra brugghúsa í Þýskalandi.

Í tilkynningu frá European Beer Star kemur fram að Surtur hafi hlotið gullið í flokknum reyktir bjórar fyrir það að vera einstakur bjór á heimsvísu sem teflir fram íslenskri arflegð á skemmtilegan hátt og er þar átt við taðreykinguna. 

Bruggmeistarar Borg eru að vonum í skýjunum með velgengni Borg brugghúss í European Beer Star. „Það var alveg frábær tilfinning að stíga upp á svið fyrir framan alla þessa bjórsérfræðinga og taka við verðlaunum fyrir þessa bjóra.  Sérstaklega sætt var að fá þessa viðurkenningu fyrir Surt Nr.30, í ljósi sérstöðu hans, en hann er reyktur með hinni séríslensku taðreykingu og er því í raun einstakur á heimsvísu.  Við höfum verið að þróa þessa íslensku aðferð inn í bjórgerð okkar undanfarin ár.  Faman af þótti fólki þetta helst til framandi sem bragð- og lyktareinkenni í bjór held ég en með frekari þróun á brugguninni og kannski vaxandi áhuga fólks fyrir öðruvísi bjórum er þetta orðið eftirsótt, sérstaklega erlendis.„  segir Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari hjá Borg.

Hvenær verður hægt að smakka Surt?

Surtur er þorrabjórinn frá okkur og hefur komið út í ýmsum útgáfum.  Hann er nefndur í höfuð eldjötunsins í norrænu goðafræðinni sem ásamt Múspelssonum er ábyrgur fyrir Ragnarrökum að miklu leyti.  Hann er alltaf bruggaður í stílnum Imperial Stout og því kolsvartur og hár í alkóhóli.  Við höfum gefið út um 10 Surti með mismunandi uppskriftarnúmerum og hafa þeir verið á bilinu 9 – 14,5% alkóhól af rúmmáli.  Surtur Nr.30, sá sem hlaut verðlaunin og er sá eini þeirra sem er taðreyktur, verður næst fáanlegur í janúar í Vínbúðunum“ 

 

 

Til baka