24.01.2013 | 10:52

Tveir Surtir - Þorrabjórar Borgar Brugghúss 2013

Á föstudag er bóndadagur sem markar upphaf Þorra og er jafnframt fyrsti dagurinn í Þorrabjórasölu hjá Vínbúðunum.  Fyrsti Þorrabjór Borgar, Surtur Nr.8, kom út fyrir um ári síðan og vakti heilmikla athygli.  Surtur Nr.8 var (og er) sterkasti bjór sem seldur hefur verið hér á landi og þótti einstaklega framsækinn og djarfur.  Svo fór að bjórinn seldist upp á einum degi og hlaut frábæra dóma meðal bjóráhugafólks um land allt.  Víða er ritað að um besta íslenska bjórinn frá upphafi sé að ræða, en hann fékk einmitt lang hæstu einkunn sem gefin hafði verið í bragðpanel Fréttatímans, 95%. 

Nú kynnum við til leiks tvo nýja Þorrabjóra frá Borg Brugghúsi; Surt Nr.15 og Surt Nr.8.1. 

Surtur Nr.15
Um er að ræða nýja uppskrift sem er þó Imperial Stout líkt og Surturinn í fyrra.  Þessi Surtur er aðeins mildari, 9% alc og samanstendur meðal annars af Belgískum sérmöltum og þrennskonar geri sem veita honum talsverða sérstöðu.  Hefðbundnir bjórar innihald alla jafna aðeins einn gerstofn.  Þetta gerir bjórinn sérstaklega fjölþættan og bragðupplifun margslúngna. 


 
 
Surtur Nr.8.1
Í kjölfarið af frábærum árangri með Surti Nr.8 í fyrra ákváðum við að leggja í nýja lögun af þeirri sömu uppskrift strax eftir Þorra.  Við útveguðum okkur svo notaðar koníakstunnir frá Frakklandi sem við lögðum bjórinn í þegar hann hafði legið í tanki til þroskunnar í um 4 mánuði.  Hann er svo þroskaður í þessum koníakstunnum í 6 mánuði þar sem hann þéttist og drekkur í sig koníak úr viðnum og karaktereinkenni eikarinnar í tunnunni.  Við þetta hækkar alkóhólmagn bjórsins um heilt prósent og tekur þessi útgáfa þá við keflinu sem sterkasti bjór íslandssögunnar, 13% alc.  Þetta mun vera fyrsti tunnuþroskaði íslenski bjórinn en þroskanir sem þessar eru þekktar og eftirsóttar víða í bjórnördaheiminum erlendis.  Þessi bjór mun undirstrika yfirburði Ölgerðarinnar í bjórframleiðslu og viðhalda því forskoti sem við höfum myndað okkur undanfarin ár svo um munar.   Aðeins 1.000 flöskur verða fáanlegar í Vínbúðunum og verða seldar í gjafaöskjum með Borgglasi. 

Frábær og einstök Bóndadagsgjöf!


Til baka