Samfélagsábyrgð samofin menningu Ölgerðarinnar.

Síðustu fjögur ár hefur Ölgerðin gefið út skýrslu um samfélagsábyrgð fyrirtækisins. Þar er farið yfir þau verkefni sem unnin hafa verið á því ári og stefna fyrir næsta ár sett. Verkefni er snerta samfélagsábyrgð eru fyrirtækinu mikilvæg. Alltaf er leitast við að lágmarka notkun auðlinda, hvort sem það er með vinnuferlum, orkunýtingu, vatnsnotkun, meðferð úrgangs, eða annarra auðlinda. Slíkt er til hagsbóta fyrir reksturinn, umhverfið og samfélagið.

Í skýrslunni fyrir síðasta ár eru teknar saman tölur og staðreyndir um niðurstöður aðgerða sem varða samfélagsábyrgð Ölgerðarinnar og markmið næsta árs sett fram. Í framhaldið er sett upp aðgerðaráætlun og starfsmenn virkjaðir. Ölgerðin ætlar að leita allra leiða til að minnka mengun frá eigin starfsemi og leitast þannig við að vera til fyrirmyndar á sviði umhverfismála og samfélagsábyrgðar.

Við stóðum okkur vel árið 2016 en 77% markmiða úr fyrri skýrslu voru kláruð á árinu. Starfsánægja mældist að meðaltali 89% árið 2016, 301 umbótarverkefni voru kláruð á árinu, matarsóun minnkaði því sem nemur heilum fíl, eldsneytisnotkun fyrirtækisins dróst saman þrátt fyrir aukin umsvif og viðskiptavinum í vefverslun fjölgaði um 41% sem dæmi.

Ölgerðin tekur þátt í því að ná sameiginlegum loftslagsmarkmiðum Íslands með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun kolefnisspors á tímabilinu 1990-2030. Ölgerðin ætlar að leita allra leiða til að minnka mengun frá eigin starfsemi og leitast þannig við að vera til fyrirmyndar á sviði umhverfismála.

Til að fylgja eftir stuðningi við markmið Íslendinga í umhverfismálum undirritaði Ölgerðin yfirlýsingu um loftslagsmál þann 16. Nóvember 2015 í Höfða. Ölgerðin ber virðingu fyrir umhverfi sínu og leitast við að lágmarka skaðsemi rekstrarins á náttúruna.

Þegar eru nokkur sjálfbær verkefni í gangi og má þar nefna að allt hrat sem fellur til við suðu á malti og byggi hjá Ölgerðinni er notað sem svínafóður. Einnig er kolsýran, sem færi annars út í andrúmsloftið, nýtt í framleiðslu. Önnur umhverfisvæn verkefni eru að varmi sem myndast við gerjun bjórs er notaður til að bræða snjó af bílaplani og lagt hefur verið áhersla á að fækka eknum kílómetrum í vörudreifingu.

Markmið loftslagsverkefnisins er eftirfarandi:

1.     Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem hlutfall af framleiðslu

2.     Minnka myndun úrgangs sem hlutfall af framleiðslu

3.     Auka sjálfbærni í ferlum fyrirtækisins

4.     Mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta

Skýrslunni og verkefnum eru skipt upp í fjóra flokka í takt við kröfur markaðarins þar sem umhverfið vegur þyngst.

Smelltu á hvern flokk til að fræðast nánar um verkefnin.