6 ágúst 2024

Ný ásýnd Orku rakar inn verðlaunum

Hinn séríslenski orkudrykkur Orka hlaut á dögunum ein eftirsóttustu alþjóðlegu verðlaun sem veitt eru vörumerkjum ár hvert þegar Ljónið fór fram í Cannes. Það var auglýsingastofan Brandenburg sem tók á móti verðlauninum fyrir endurmörkun á drykkjarvörumerkinu sem unnin var í samstarfi við Ölgerðina. Þetta er í fyrsta skipti sem innlend fyrirtæki hljóta þessi virtu verðlaun án aðkomu erlendra auglýsingastofa.

 

Þetta eru ekki einu verðlaun verkefnisins á árinu. Orka hlaut einnig auglýsingaverðlaun fyrir endurmörkun á One Show hátíðinni í New York nokkrum vikum áður. En One Show á sér yfir 50 ára sögu og eru einnig meðal virtustu auglýsingaverðlauna í heimi. Þangað berast um 20 þús tilnefningar á ári hverju og Orka var þar á stalli meðal vörumerkja eins og Nike, Google og IKEA. Orka hefur einnig hlotið athygli innanlands, en vörumerkið hlaut Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin fyrr á árinu.


Að sögn Jóhannesar Páls Sigurðssonar, orkumálastjóra Ölgerðarinnar þá er velgengnin ekki síst að þakka því að ungt listafólk var sett í forgrunn og útlitið byggir á myndsköpun þeirra.

 

„Endurmörkun Orku byggist á því að gefa ungu fólki vettvang og hafa frjálsar hendur í sköpun og listtjáningu. Þannig fáum við nýja listamanneskju með okkur í lið fyrir hverja nýja bragðtegund sem við sendum á markað og hver dós er auður strigi þeirrar manneskju sem við erum í samstarfi við hverju sinni. Orka er hinn upphaflegi íslenski orkudrykkur og kemur á markað árið 1998. Margir muna eftir því hvernig varan kynnti sig til leiks, en karakterinn Friðrik 2000 var þar í fyrirrúmi. Það má segja að farið hafi verið gegn hefðbundnum tóni orkudrykkja þess tíma. Nú göngum við enn lengra og erum í algjörri andstæðu við það sem hefðbundið er – sköpum tón sem er fremur í takt við nútímagildi þar harka og öfgar eru á undanhaldi. Þetta er í mjög stuttu máli það sem verið er að verðlauna okkur fyrir, þessa áru og svo útlit í takt. Við erum stolt af árangrinum og þessum verðlaunum en þetta unga listafólk sem er að hjálpa okkur með túlkunina á ekki síður heiðurinn af þeim“ segir Jóhannes Páll Sigurðarson orkumálastjóri Ölgerðarinnar í fréttatilkynningu.

 

Sjá nánar frétt á DV 28. júlí 2024

VR Fyrirmyndarfyrirtæki Jafnlaunavottun BSI Vottanir LEED Vottanir