03.03.2011 | 11:00

Bjartur - Nýr bjór frá Borg Brugghúsi

Borg Brugghús kynnir nú sinn fjórða bjór og hefur hann fengið nafnið Bjartur, en hann er af tegund ljósra/blond  bjóra. Sérstök kynning fór fram á Ölstofu Kormáks og Skjaldar á sjálfan bjórdaginn, 1. mars, og var þar margt góðra gesta. Bjartur rann ljúflega niður ásamt þýskum pylsum en eitt af markmiðum Borgar Brugghúss er að fræða matgæðinga um hve bjór hentar vel með hvers kyns mat. 

Veislustjóri kvöldsins var Úlfar Linnet og minntist hann þess að 22 ár eru liðin síðan klippt var á bjórbannið svokallaða. Sturlaugur, bruggmeistari Borgar, sagði frá Bjarti og fleiri nýjungum sem væntanlegar eru frá þessu kraftmikla brugghúsi. Svavar Knútur kætti loks viðstadda með söng og glensi.

Bjartur ber nafn með rentu. Hann er auðdrekkanlegur en um leið áhugaverður án þess að vera yfirþyrmandi eða ágengur, má vel greina keim af ávöxtum, tilkominn fyrir snilli bruggmeistarans. Bjartur er undirgerjaður og ljós og óhætt er að segja að bragðið komi á óvart.

Bjartur er fjórði bjórinn sem Borg Brugghús kynnir, en fyrir eru Bríó, sem er gestum Ölstofunnar af góðu kunnur enda aðeins fáanlegur þar, en brátt mun hann einnig fást í vínbúðum. Austur Brunöl var bjór nr. 2, hann er eingöngu seldur á veitingahúsinu Austur og þykir henta einstaklega vel með góðri steik. Úlfur var sá þriðji, hann er ekta India Pale Ale (IPA) bjór og kom í verslanir fyrir fáeinum vikum. Úlfur hentar mjög vel með sterkum mat, jafnt indverskum sem íslenskum saltfiski. 

Til baka