07.05.2012 | 22:19

Bríó vinnur virtustu bjórverðlaun heims

Íslenskur bjór vann um helgina gullverðlaun í stærstu og virtustu bjórkeppni heims. Bjórinn Bríó var þróaður sérstaklega af Borg Brugghúsi í samstarfi við Ölstofu Kormáks og Skjaldar. Hann bar sigur úr býtum í sínum flokki í World Beer Cup 2012 sem fram fór í Kaliforníu en 799 bruggverksmiðjur frá 54 löndum tóku þátt í keppninni með samtals tæplega 4000 bjóra.

Nánari upplýsingar um World Beer Cup:
www.worldbeercup.org

Bríó er fyrsti bjórinn sem Borg Brugghús sendi frá sér fyrir tveimur árum. Til að byrja með var hann aðeins fáanlegur á Ölstofunni en er nú seldur í Vínbúðunum í Kringlunni, Skútuvogi og Heiðrúnu auk fríhafnarinnar í Keflavík.

Bríó er nefndur eftir góðum vini þeirra Kormáks og Skjaldar, fjöllistamanninum Steingrími Eyfjörð Guðmundssyni, sem lést fyrir aldur fram árið 2009. „Hann var afskaplega skemmtilegur maður, mikill sagnameistari og tryggur viðskiptavinur Ölstofunnar,“ segir Kormákur. „Hann var kallaður Bríó – en bríó er gamalt ítalskt orð yfir gleði. Bríó er eiginlega sérstakur lífsstíll, en orðið lýsir þeim sem kunna að njóta lífsins og lystisemda þess en stilla öllum áhyggjum í hóf,“ segir Kormákur.

Ævafornir humlar og lífsins lystisemdir

Samkvæmt Sturlaugi Jóni Björnssyni, bruggmeistara Borgar Brugghúss, er Bríó svokallaður pilsner-bjór en ólíkt því sem margir Íslendingar halda er pilsner ekki léttöl heldur ljós lagerbjór, ættaður frá borginni Pilsen í Bæheimi í vestanverðu Tékklandi. „Þessi bjórstíll leit fyrst dagsins ljós á miðri 19. öld og varð svo vinsæll að megnið af þeim bjór sem drukkinn er í dag er á einn eða annan hátt byggður á þessum stíl,“ segir Sturlaugur. „Notað er þýskt humlayrki, Mittelfruh frá Hallertau í Bavaríu, í bjórinn. Þessi humlar eru margrómaðir og ævafornir og einkum þekktir fyrir að gefa bjór einkennandi bragð og ljúfa lykt. Flestir nútímaneytendur þekkja lítið til bragðs eða lyktar af humlum, þar eð þeir eru nú til dags einkum notaðir í bjór til að gera hann beiskan. Auk humla er notað ljóst pilsen-malt frá Svíþjóð, vatn úr Gvendarbrunnum og undirgerjandi ger. Bríó keppti því í einum stærsta flokki keppninnar, flokki þýskra pilsnerbjóra.“


Nánari upplýsingar veita:

Óli Rúnar Jónsson
vörumerkjastjóri,
S: 665-8226
Oli.runar.jonsson@olgerdin.is

og

Kormákur Geirharðsson
Ölstofu Kormáks & Skjaldar
S: 860-1111
kommi@simnet.is

Til baka