19.10.2011 | 14:17

Bruggmeistari Ölvisholts til liðs við Ölgerðina

Valgeir Valgeirsson, fyrrum bruggmeistari í Ölvisholti, hefur nú gengið til liðs við Ölgerðina. Sem bruggmeistari í Ölvisholti hefur Valgeir þróað fjölda vel heppnaðra bjóra og á heiðurinn af öllum vörumerkjum þaðan. Valgeir er með mastersgráðu í bruggun og eimingu frá Heriot Watt háskólanum í Skotlandi og er auk þess lífefnafræðingur. Valgeir starfaði á rannsóknarstofu Ölgerðarinnar áður en hann hóf bruggmeistaranám í Skotlandi og fékk að loknu námi sínu þar, vinnu hjá Heather Ale brugghúsinu þar í landi, sem aðstoðarmaður bruggmeistara. Árið 2007 bauðst Valgeiri að koma heim og taka þátt í uppbyggingu brugghússins í Ölvisholti. Valgeir bætist nú í hóp margverðlaunaðra bruggmeistara Ölgerðarinnar, þeirra Guðmundar Mar Magnússonar og Sturlaugs Jóns Björnssonar. Saman munu Valgeir og Sturlaugur leggja áherslu á þróun nýrra bjóra undir merkjum Borgar brugghúss.

„Það er ánægjulegt að vera kominn til liðs við jafn spennandi og framsækið fyrirtæki og Ölgerðina. Ég hef verið mjög hrifinn af bjórunum frá Borg og ég hlakka mikið til þess að þróa og brugga góðan bjór með bruggmeisturunum hér. Ég hef alltaf haft mikið dálæti á bjór. Daginn sem ég varð tvítugur fór ég t.a.m. rakleiðis í Vínbúðina og keypti tvær flöskur af öllum þeim tegundum sem voru í boði og gerði frumstæðar bragðprófanir heima í stofu, segir Valgeir brosandi þegar hann rifjar upp atvikið. Seinna þegar ég stóð á hálfgerðum krossgötum og hafði lokið lífefnafræði í HÍ og vissi ekki alveg hvert ég vildi stefna, þá spurði kærastan mín mig af hverju ég færi ekki bara að læra bruggun. Í fyrstu fannst mér hugmyndin fjarstæðukennd, en eftir því sem ég hugsaði meira um það virtist eins og allt sem ég hafði gert fram að því hefði verið sérsniðinn undirbúningur fyrir bruggmeistaranámið. Þetta er skemmtilegt starf og maður þarf stöðugt að halda sér á tánum, sækja sér nýja þekkingu og gera tilraunir. Það er það sem gefur þessu gildi.“

Borg brugghús hefur á stuttum tíma skapað sér sérstöðu í framleiðslu á fjölbreyttum og vönduðum bjórum og kynnt nýstárlegar bjórtegundir fyrir landanum sem hafa ekki áður þekkst hér. Til að mynda er stutt síðan bjórarnir Bjartur og Úlfur litu dagsins ljós. Úlfur er jafnframt fyrsti íslenski IPA bjórinn, en IPA stendur fyrir Indian Pale Ale. Nú fyrir skemmstu leit fimmti bjór Borgar brugghúss dagsins ljós, en það er árstíðarbjórinn Október. Auk þess sérframleiðir Borg brugghús bjórinn Bríó, fyrir Ölstofu Kormáks og Skjaldar.

Til baka