26.05.2015 | 11:24

Egils Límonaði aftur á markað eftir 30 ár

Ölgerðin hefur sett Egils Límonaði aftur á markað en framleiðslu á vörunni var hætt árið 1985. „Ástæða þess að varan snýr aftur 30 árum síðar er fyrst og fremst vegna þess að við teljum að varan eigi fullt erindi á markað aftur“ segir Sigurður Valur Sigurðsson vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni. „einnig vildum við halda uppá að í ár eru liðin heil 60 ár síðan Egils gosdrykkjalínan kom fyrst á markað og því vel við hæfi að fá þennan gamla vin aftur eftir ára langa fjarveru“

„Egils Límonaði er sígildur, svalandi sumargosdrykkur og við vonum svo sannalega að koma hans í verslanir marki upphafið að góðu sumri. Egils Límonaði verður þó ekki í föstu vöruvali en drykkurinn verður aðeins framleiddur í takmörkuðu upplagi og aðeins í boði á meðan sól vermir sæ“  bætir Sigurður við.

Egils Límonaði kom fyrst á markað í kringum árið 1955, um svipað leiti og Egils Appelsín og Egils Grape, þá undir nafninu Egils Sítrónu-Límonaði. Vinsældir vörunar voru sveiflukenndar en innanbúðar heimildir í Ölgerðinni herma að þær hafi verið mestar á Austurlandi og í Vestmanneyjum þó ekki hafi fundist skýringar á því. 

Eflaust tengja margir límonaði við ljúfar æskuminningar, sól og frí. „Límonaði minnir mann óneitanlega á sumarnostalgíu eins og  tjaldútilegur; þar sem allri fjölskyldunni var hrúgað upp í bílinn og gist í A-tjaldi einhversstaðar úti í guðsgrænni náttúrunni, þetta ótakmarkaða frelsi og spennandi ævintýri við hvert fótmál. Þannig er Egils Límonaði“ segir Sigurður.

Til baka