19.02.2019 | 11:31

Einföldun í rekstri hjá Ölgerðinni

Rekstur Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar verður einfaldaður og hluta lagerstarfsemi og dreifingar verður útvistað til að takast á við vaxandi umsvif og auka sveigjanleika. Ölgerðin verður frá og með næstu mánaðamótum alhliða drykkjarvörufyrirtæki en allur annar innflutningur verður á sama tíma hjá dótturfyrirtækinu Danól.

Starfsemi okkar hefur margfaldast á undanförnum árum og síkvikt viðskiptaumhverfi kallar á að fyrirtæki leiti allra leiða til að gera hlutina betur, auka möguleika til vaxtar, hagræða og styrkja sig enn frekar á markaði. Fyrirtæki sem fylgist ekki með breytingum og aðlagar sig ekki að nýjum aðstæðum verður í vanda og við höfum óhikað tekið ákvarðanir sem þessar til að halda okkur í fremstu röð,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri.

Ölgerðin er og hefur verið leiðandi á sínu sviði sem afburða drykkjarvörufyrirtæki í 106 ár og með þessum breytingum verður fyrirtækinu gert kleift að styrkja enn frekar eigin framleiðslu og innflutning á drykkjarvöru.  Danól verður með alla matvöru, snyrti- og sérvörur, ásamt vörum til stóreldhúsa og er óhætt að fullyrða að einfaldara skipulag mun skerpa fókusinn og losa um vaxtahömlur,“ segir Andri Þór.

Auk einföldunar í rekstri verður hluta lagerstarfsemi og dreifingar útvistað og vegna þessara breytinga fækkar starfsmönnum um 25 hjá Ölgerðinni, þvert á öll svið fyrirtækisins, en hluta þeirra býðst að taka við störfum í tengslum við útvistunina.

Starfsemi Danól verður í framhaldi flutt í húsnæði gegnt Ölgerðinni á Fosshálsi en þessar breytingar og útvistun á lagerstarfsemi og dreifingu gera Ölgerðinni kleift að vaxa og auka enn frekar vöruþróun eigin vörumerkja.

 

 

Til baka