04.01.2012 | 13:41

Fjallað um Surt, væntanlegan bjór nr. 8 frá Borg Brugghúsi, í Pressunni

Sterkasti bjór sem framleiddur hefur verið á Íslandi er væntanlegur í vínbúðir í lok mánaðarins. Bjórinn, sem er 12 prósent, mun heita Surtur. Nafnið vísar í jötuninn sem brennir heiminn. 

Surtur er þorrabjórinn frá Borg brugghúsi. Um er að ræða biksvartan „Russian Imperial Stout“ sem þykir vinsælt afbrigði meðal bjóráhugamanna. Bruggmeistarinn Sturlaugur Jón Björnsson segist ekki vita til að sterkari bjór hafi verið framleiddur á Íslandi. 

„Það er skemmtilegt við þennan bjór að hann mun alltaf koma á þorranum, en hann verður breyttur á milli ára. Það er þannig með þessa sterku bjóra að þeir þroskast og dafna vel og lengi, eins og fínustu vín. Stimpillinn á bjórnum er 10 ár en hann dugar vel fram yfir það.“

Sturlaugur segir að nafnið sé sótt í norræna goðafræði og vísar það til eldjötunsins Surts. Hann kemur úr Múspellsheimi og í Ragnarökum ríður hann um jörðina ásamt Múspellssonum með glóandi sverði og brennir jörðina.

Sturlaugur telur ekki að nafnið komi til með að valda deilum.

„Það er búið að hugsa fyrir því. En ég get ekki séð að þetta ætti að valda deilum. Það má finna marga staði á Íslandi sem nefndir eru í höfuðið á Surti, eins og Surtsey og Surtshellir,“ segir Sturlaugur og bætir við: „Það er þannig með þessa tegund bjórs að þeir eru oft nefndir í höfuðið á vondum hetjum. Margir bjórar í Bandaríkjunum vísa til dæmis til djöfulsins í ýmsum útfærslum. Það þótti því við hæfi að vísa í jötuninn sem samkvæmt norrænni goðafræði veldur heimsendi.“

Eins og áður sagði er bjórinn væntanlegur í verslanir í lok mánaðarins. Hann verður fáanlegur í takmörkuðu upplagi og áætlar Sturlaugur að á milli 4 til 5 þúsund flöskur verði framleiddar. Segir sagan að flaskan muni kosta 666 krónur, en það kemur í ljós þegar hann ratar í hillur vínbúðanna.

Fengið héðan af vef Pressunnar.

Til baka