19.04.2011 | 11:59

Fréttatilkynning frá Ölgerðinni

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins komu á þriðjudagsmorgni á skrifstofur Ölgerðarinnar og framvísuðu heimild til þess að leggja hald á gögn hjá fyrirtækinu. Í heimildinni kom ekkert fram um ástæður leitarinnar og stjórnendur Ölgerðarinnar vissu því á þeim tíma ekki að hverju rannsóknin beindist.

Síðdegis sama dag bárust síðan þær skýringar frá Samkeppniseftirlitinu að rannsóknin beindist að grun um samráð Ölgerðarinnar og Vífilfells um uppröðun og framstillingarhlutföll í kælum og hillum verslana.

Það fyrirkomulag hefur viðgengist í langan tíma að sala ráði framstillingu.  Þótt ákveðin uppstillingarmynd séu gerð hjá  tilteknum birgi, þá er hún alltaf í samræmi við það sem verslanirnar sjálfar hafa kosið, enda eru teiknaðar þar inn vörur frá mörgum birgjum. Verslunin sjálf hefur alltaf lokaorðið með endanlega uppstillingu í hverjum kæli.

Tvö atriði skipta þó höfuðmáli í þessu sambandi:
Verslanir halda alltaf eftir um 15-20% af hilluplássi fyrir eigin vörur og nýjar vörur á markaði. Það er oft langt umfram það sem markaðshlutdeild þeirrar vöru segir til um.
Enn mikilvægari er þó sú staðreynd að hillur og kælar eru alls ekki eftirsóttasta plássið í verslunum heldur staðsetning vöru á gólfi. Gólfpláss eru ekki teiknuð eftir sölutölum og þar geta nýliðar á markaði gert samning við verslun um pláss langt umfram sína markaðshlutdeild, eins og allir geta sannreynt í næstu búðarferð.

Sölutölur eru fengnar frá AC Nielsen sem allir geta keypt sér aðgang að.  Sölutölurnar eru settar í svokallað Spaceman kerfi sem vinnur uppstillingarmyndir (planogram) fyrir hillur og kæla í verslunum til þess að auðvelda verklag við uppröðun. Verslanir hafa einfaldlega séð hagræði í því að koma þeirri teiknivinnu yfir á birgjana sem raða líka í hillurnar

Til baka