28.11.2016 | 11:17

Gréta Nr.27 frá Borg Brugghúsi verðlaunuð í Belgíu

Tvenn alþjóðleg verðlaun í sama mánuði

Októberbjórinn Gréta Nr.27 frá Borg Brugghúsi hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi gæði á Brussels Beer Challenge í Belgíu í vikunni.  Þetta verður að teljast nokkuð góður árangur í einu helsta bjórmenningarlandi heims en aukreitis nældi Gréta í verðlaun á European Beer Star, einni virtustu bjórkeppni í heiminum, fyrr í mánuðinum.

Brussel Beer challenge-keppnin hefur aldrei verið jafn umfangsmikil og í ár en á vef Reuters segir að í keppninni í ár hafi 80 dómarar frá 27 löndum dæmt rúmlega 1.250 bjóra.

Að vinna verðlaun hér í Belgíu, stærsta bjórlandi í heimi, það er gríðarlegur heiður fyrir brugghús“ er haft eftir Luc De Raedemaeker, sem er í forsvari fyrir keppnina.

Við erum sérstaklega ánægð með þetta og gaman að fá viðurkenningu í Belgíu, einu helsta bjórmekka heimsins.  Annars er ástæða til að þakka fylgjendum okkar á Facebook sérstaklega þar sem við brugguðum Grétu Nr.27 í ár að þeirra ósk.  Í upphafi árs spurðum við á Facebook síðu brugghússins hvaða bjór af þeim sem væru ekki lengur í framleiðslu fólk vildi að við brugguðum aftur og fengum einhver hundruð svör sem voru allskonar. 

Þegar við tókum þetta saman var Gréta ein af 3-4 bjórum sem fengu flest atkvæði og því ákváðum við að skella í hana fyrir Októberfest í ár líkt of við gerðum 2014.  Það er greinilega sérstakt smekkfólk sem er samankomið á síðunni eins og okkur grunaði og Gréta komin með tvenn alþjóðleg verðlaun í þessum mánuði.  Við sjáum því ekki eftir þessu og þökkum fyrir okkur.“ segir Valgeir Valgeirsson bruggmeistari hjá Borg Brugghúsi.

 

 

Til baka