08.05.2013 | 09:15

Heldur vart vatni yfir borg

Einn helsti bjórfræðingur Evrópu, sem ritað hefur einhverjar þekktustu bjórbækur sem gefnar hafa verið út, sparar ekki lofið í pistli um þrjár bjóra Borgar Brugghúss. Hann segir þá Surt, tunnuþroskaðan Surt og Júdas afskaplega merkilega bjóra og lýsir angan þeirra og bragði af mikilli nákvæmni.

Bjórfræðingurinn, Adrian Tierney-Jones, er meðal annars yfirdómari í Evrópuhluta World Beer Awards og hefur hann atvinnu af því að skrifa um bjór. Hann kemur meðal annars inn á það í pistlinum að hafa heyrt það ansi oft, að um besta starfs heims sé að ræða. Finna má bækur hans á vefversluninni Amazon en þær eru meðal annars 1001 Beers: You Must Try Before You Die, Pubs for Families og Big Book of Beer.

Í pistli sínum tekur hann fyrir umræddar þrjár bjórtegundir Borgar, en hann hafði áður skrifað um Bríó og gefið honum sín bestu meðmæli. Ekki síðri dóma fá þeir Júdas, Surtur og tunnuþroskaður Surtur en meðal þess sem hann segir um þann síðastnefnda er að hann sé jafn dökkur og dekksta hugsun sem kemur upp í hugann um miðja nótt. Aðrar og hástemmdari lýsingar er óþarfi að hafa eftir en hér er pistill Tierney-Jones.

Grein fengin af mbl.is

Til baka