20.09.2012 | 16:02

Lúðvík nr.12 frá Borg brugghúsi

Nýr árstíðarbundinn bjór frá Borg Brugghúsi er af tegundinni doppelbock, 8% að styrk og ber nafnið Lúðvík. Bjórinn er bruggaður í tilefni af Októberfest sem hefst í Bæjarlandi um helgina. 

Lúðvík er krónprinsinn af Bæjaralandi og hefur þessi eðalborni doppelbock bjór hlotið tilnefningu Borgar Brugghúss sem bjór Októberfest-hátíðarinnar árið 2012. Lúðvík er kenndur við konung Bæjaralands sem var upphafsmaður Októberfest-hátíðarinnar ásamt konu sinni Teresu, en þau gengu í það heilaga þann 12. október árið 1810. Lúðvík krónprins tengist nafna sínum nr. 12 einnig á þann hátt að hann gaf leyfi fyrir bruggun á hinum upprunalega doppelbock bjór, sem sjálfur Napoleon hafði lagt blátt bann við. Rétt eins og nafni hans, þá er bjórinn Lúðvík til alls vís, margslunginn, kröftugur og fyrirferðarmikill.  Borg Brugghús reið á vaðið fyrir ári síðan og kynnti til leiks fyrsta íslenska Októberfest-bjórinn, þ.e.a.s. fyrsta bjórinn sem bundinn var þessum sölutíma hérlendis.  Bjórinn bar nafnið Október nr.5 og seldist hann upp á örfáum vikum.
 
Lúðvík er fagur á að líta, hefur djúpan bronslit og eins og góðum doppelbock sæmir þá er hann nokkuð sterkur eða 8%. Hans helstu bragðeinkenni eru brennd karamella, þurrkaðir ávextir og hófleg beiskja. Lúðvík má para með ýmiskonar mat og er sannarlega á heimavelli með þjóðlegum og matarmiklum kjötréttum. 
 
Doppelbock er bjórtegund sem lítið hefur farið fyrir hér á landi og er ekki nokkurn slíkan bjór að finna í verslunum Vínbúðanna um þessar mundir.  Stílinn má rekja til bæverskra munka og var hann sérstaklega vinsæll á föstunni, þegar ekki mátti innbyrða neina fasta fæðu, enda doppelbock jafnan í sterkari kantinum, bragðmikill og innihaldsríkur. 
 
Gert er því ráð fyrir að bjóráhugamenn taki Lúðvík fagnandi en hann lendir í verslunum ÁTVR næstkomandi mánudag og völdum börum og veitingastöðum strax um helgina.  „Við erum mjög spenntir að sjá hvernig Lúðvík mun leggjast í íslenska bjóráhugamenn.  Hann er auðvitað talsvert frá hinum hefðbundnu íslensku lagerbjórum eins og margt af því sem við bruggum í Borg,“  segir Guðmundur Mar bruggmeistari en Lúðvík er samstarfsverkefni allra þriggja bruggmeistara Ölgerðarinnar og Borgar.
 
Það er eftirsóknarvert og krefj¬andi að vera bjór Októrberfest-hátíðarinnar og Lúðvík er svo sannarlega vel að nafnbótinni kominn.  Prost!

Til baka