17.02.2014 | 13:53

Minni pappírsnotkun

Anton Egilsson og Ólöf Guðmundsdóttir hjá Nýherja og Hafsteinn Ingibjörnsson hjá Ölgerðinni

Ölgerðin hefur tekið í notkun Rent A Prent, umhverfisvæna prentþjónustu frá Nýherja. Í yfirlýsingu frá Ölgerðinni segir að innleiðing á Rent A Prent sé í takt við stefnu Ölgerðarinnar í umhverfismálum.

„Í Rent A Prent er sparnaðurinn falinn í notkun á minni pappír vegna tvíhliða prentunar og aðgangsstýrðra prentara," segir Anton Egilsson, lausnaráðgjafi hjá Nýherja. Almennt er talið að um 15% af útprentun fyrirtækja og stofnana sé vannýtt.

Lausnin er sögð auka öryggi í meðferð gagna því með auðkenniskorti á prentverki er hægt að koma í veg fyrir að viðkvæmar upplýsingar liggi á glámbekk.

„Ölgerðin hefur á liðnum árum unnið markvisst eftir skýrri stefnu um samfélagsábyrgð. Á 100 ára afmæli félagsins á þessu ári voru skilgreind fjölmörg mælanleg verkefni sem tengjast samfélagsábyrgð, svo sem á sviði umhverfismála. Má þar nefna orkunotkun, vatnsnotkun í framleiðslu, endurvinnalegar umbúðir og nýting kolsýru. Rent A Prent prentþjónusta fellur því afar vel að stefnu okkar á þessu sviði,“ segir Hafsteinn Ingibjörnsson hjá Ölgerðinni.

Til baka