08.04.2013 | 13:55

Nescafe 75 ára

Hugmyndin um Nescafé fæddist sem lausn við því vandamáli hvernig væri hægt að nýta kaffiframleiðslu sem ekki seldist. Nú árið 2013 á Nescafé 75 ára afmæli og hefur um langa hríð verið einn af vinsælustu drykkjum í heimi. Hverja einustu sekúndu eru fleiri en 5.000 bollar drukknir og hægt er að fá fjölbreyttar tegundir sem falla að ólíkum smekk fólks um allan heim.

„Það er rík ástæða til að halda upp á merkilega sögu Nescafé. Með tilkomu þess varð í fyrsta skipti fáanlegt skyndikaffi sem varðveitti raunverulegt kaffibragð og kaffiilm. Í áranna rás þróaðist það svo úr dósakaffi yfir í stóra og fjölbreytta vörulínu,“ segir Carsten Fredholm, yfirmaður markaðsmála drykkjarvara hjá Nestlé. „Nescafé fæst nú í 180 löndum og við horfum bjartsýn fram á veginn og munum halda áfram að vera í fararbroddi í kaffidrykkjabransanum,“ bætir hann við.

NÝSKÖPUN FRÁ UPPHAFI

Árið 1929 var þáverandi forstjóra Nestlé, Louis Dapples, falið óvenjulegt verkefni af fyrrverandi vinnuveitanda sínum, bankanum Banque Française et Italienne pour l’Amérique du Sud. Þetta var í kjölfar verðbréfahrunsins mikla á Wall Street og verð á kaffi hafði skyndilega hrapað. Bankinn sat þess vegna uppi með mikið magn af kaffi sem ekki var hægt að selja í vöruskemmum í Brasilíu.

Bankinn vildi láta reyna á það hvort hægt væri að umbreyta kaffibirgðunum í „uppleysanlega kaffimola“ sem hægt væri að koma í sölu. Til að finna lausnina fékk Nestlé efnafræðing að nafni dr. Max Morgenthaler til liðs við rannsóknarteymi fyrirtækisins. Eftir þriggja ára rannsóknir gerðu vísindamennirnir uppgötvun: Kaffiduft sem gert var úr café au lait – kaffi með mjólk og sykri – varðveitti bragðgæðin miklu betur en ella. Gallinn var bara að slíkt duft var erfitt að leysa upp, auk þess sem mjólkin og sykurinn flæktu framleiðsluferlið.

NESCAFÉ VERÐUR TIL

Meiri bragðgæði mjólkurkaffiduftsins voru ein uppgötvun dr. Morgenthalers. Önnur var sú að með því að meðhöndla kaffið með háum hita og þrýstingi var hægt að láta það endast betur. Lykillinn við að búa til gott skyndikaffi, ályktaði efnafræðingurinn, fólst í því að búa til duft með viðbættum kolvetnum. Þetta var ný og frumleg tilgáta sem ekki hafði verið prófuð áður.

Árið eftir beitti hann sérstakri tækni til að bæta kolvetnum við kaffiduftið. Á fundi með framkvæmdastjórn Nestlé kynnti hann vöruna með því að bera fram duft fyrir fundargesti að blanda sjálfa og smakka. Tveimur árum síðar, 1. apríl 1938, kom skyndikaffið á markað í Sviss undir nafninu Nescafé. Nestlé hóf framleiðslu á Nescafé í svissneska bænum Orbe, þar sem notast var við úðaþurrkun á kaffibaunum til að búa duftið til.

Tveimur mánuðum seinna kom skyndikaffið á markað í Bretlandi og í Bandaríkjunum árið eftir, 1939. Í apríl 1940, tveimur árum eftir að fyrstu dósirnar voru seldar í Sviss, var Nescafé fáanlegt í 30 löndum víðsvegar um heiminn.

NESCAFÉ OG SEINNA STRÍÐIÐ
 
Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar keyptu Svisslendingar, Bretar og Bandaríkjamenn 75% af heimsframleiðslunni á Nescafé. Skjótar vinsældir og söluaukningu mátti rekja til þess að skyndikaffið geymdist miklu betur en ferskt kaffi. Stærstur hluti framleiðslunnar á þessum tíma voru birgðir fyrir bandaríska hermenn og árið 1943 voru tvær verksmiðjur reistar í Bandaríkjunum til að anna eftirspurninni.

STÓRIR ÁFANGAR

Árið 1952 fundu vísindamenn Nestlé í frönsku verksmiðjunni í St. Menet nýja aðferð til að framleiða Nescafé án þess að bæta kolvetnum við duftið. Á sjöunda áratugnum var farið að pakka kaffinu í glerkrukkur í stað dósa til að halda kaffinu fersku enn lengur. Árið 1965 fann Nestlé leið til að frostþurrka kaffið og setti Nescafé Gold Blend á markað.

Í áranna rás varð til heil lína af fjölbreyttum Nescafé drykkjum – Nescafé Decaffeinated, Nescafé Gold Espresso, Nescafé Frappé, Nescafé Cappuccino og Nescafé Ready-to-Drink. Á tíunda áratugnum fengu vísindamenn Nestlé einkaleyfi á sjálffreyðandi blöndu sem bjó til ekta mjólkurfroðu með réttri áferð og til varð Nescafé Cappuccino.

KAFFIVÉLAR

Nestlé heldur enn áfram að framleiða nýjungar tengdar Nescafé. Árið 2006 kom Nescafé Dolce Gusto vélin á markað í Sviss, Þýskalandi og Bretlandi, og á Spáni árið eftir. Vélin, sem er kölluð „heimakaffihús“ býr bæði til heita og kalda drykki og í hana er hægt að nota Nescafé, Nestea og Nesquik hylki. Hún fæst í fimm gerðum, Melody, Circolo, Piccolo, Fontana og Creativa.


Tveimur árum síðar kom Nescafé Barista vélin á markað, en hún er aðeins fáanleg í Japan. Þetta er eina skyndikaffivélin sem lagar einn bolla í einu af hvaða kaffidrykk sem er.

Í Nestlé Professional deildinni, sem þjónustar veitingabransann, fer einnig fram mikil nýsköpun fyrir Nescafé. Nú eru fáanlegar þrjár stærri vélar sem gera fjölbreytta kaffidrykki; Nescafé Alegria, Nescafé Milano og Viaggi by Nescafé. Samtals eru 400.000 slíkar vélar í notkun út um allan heim og á hverri sekúndu gera þær 175 bolla. Nýjasta uppfinningin er vél sem heitir Nescafé Milano Lounge og gerir veitingamönnum kleift að bjóða upp á samkeppnishæft gæðakaffi í sjálfsala.

NESCAFÉ STEFNAN

Nestlé hefur með einbeittri viðleitni náð miklum árangri við að tryggja að alls staðar í  framleiðsluferlinu, frá ræktun til sölu, sé samfélagsleg ábyrgð höfð í heiðri. Árið 2010 var svo svokölluð Nescafé stefna kynnt í Mexíkóborg en stefnan er hluti af 65 milljarða króna fjárfestingarverkefni í kaffiframleiðslu og -sölu sem stendur til 2020.

Í stefnunni eru skilgreind hnattræn markmið, sem munu bæta framleiðsluferli Nestlé enn meira. Hráefni verður í auknum mæli keypt beint af bændum og kaffibændur fá margs konar aðstoð við að tæknivæða ræktunina. Í Nescafé stefnunni felst að Nestlé muni árið 2015 kaupa meira en 180.000 tonn af kaffi sem ræktað er á sjálfbæran hátt af um 17 þúsund bændum.

Til baka