22.09.2011 | 13:06

Október er nýr bjór frá Borg brugghúsi

Nýjasti bjórinn frá Borg brugghúsi hefur fengið nafnið Október. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta árstíðabundinn bjór sem verður eingöngu fáanlegur í októbermánuði enda dregur hann nafn sitt  af Októberfest hátíðinni vinsælu í Þýskalandi. Að sögn Sturlaugs Jóns Björnssonar, bruggmeistara hjá Borg, má rekja upphaf Októberfests til ársins 1810 en þá gengu Lúðvík, krónprins af Bavaríu og Teresa af Saxe-Hildburghausen í hjónaband. „Lúðvík þessi var flottur gaur og bauð öllum sínum þegnum til stórrar veislu fyrir utan München. Talið er að um 40.000 manns hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum. Hann gerði sér örugglega enga grein fyrir því að þetta var upphafið á stórhátíðinni Októberfest sem að flestallir þekkja í dag og hefur teygt anga sína nánast út um alla veröld. Októberfest er í dag 16-18 daga hátíð sem hefst um miðjan september og lýkur fyrstu helgina í október og er sótt af um 6,5 milljónum manna sem innbyrða um 7 milljón lítra af bjór og mörg þúsund tonn af mat.“
 
„Okkur þykir ærin ástæða til að fagna komu haustsins og uppskerunnar og minnast jafnframt sumarsins sem er að líða. Október er kærkomin viðbót við þá árstíðarbjóra sem eru fyrir hendi,“ segir Sturlaugur. „Október hefur djúpan appelsínu-koparrauðan lit og maltríkan ilm og bragð sem málar stórkostlegar haustlitamyndir í huga neytandans. Meginuppistaða maltsins í þessum bjór er München-malt, en einnig er örlítið af Pils-malti og ljósu Caramel-malti. Perle-humlar leggja grunninn að beiskjunni sem gefur rétta mótvægið.“ Október er fáanlegur í vínbúðum og fjölda veitingahúsa í flöskum en af dælu verður hann aðeins afgreiddur á Ölstofu Kormáks og Skjaldar, The English Pub, Faktory og  Kaffi Amor.
 
Október er fyrsti árstíðarbjór Borgar brugghúss en svo sannarlega ekki sá síðasti.  Borg Brugghús er örbrugghús Ölgerðinnar, en Ölgerðin hefur verið leiðandi í kynningu árstíðabjóra, var til að mynda fyrsti íslenski framleiðandinn sem bruggaði þorrabjór.

Til baka