20.01.2012 | 18:15

Ölgerðin biðst afsökunar

Ölgerðin biður neytendur afsökunar á því að salt, sem fyrirtækið seldi til matvælaiðnaðar, hafði ekki formlega vottun til nota í matvælaframleiðslu og gat því vakið efasemdir neytenda um gæði og hollustu einstakra matvæla frá íslenskum fyrirtækjum.

Forstjóri Ölgerðarinnar baðst afsökunar á þessum mistökum í fyrsta viðtali í fjölmiðlum um þetta mál laugardaginn 14. janúar og strax á mánudegi var formleg afsökunarbeiðni komin inn vefsíðu Ölgerðarinnar. 
Ölgerðin var hvorki vísvitandi né í gróðaskyni að selja ranga vöru, heldur voru þetta mannleg mistök starfsmanna. Mistökin voru þau að átta sig ekki á því að saltið var ekki formlega vottað til matvælaiðnaðar. Ölgerðin hefur alltaf afhent óvottað salt í upprunalegum umbúðum og á reikningum hefur alltaf komið skýrt fram að um varan væri iðnaðarsalt. Eftir rannsóknir og mælingar á saltinu hefur Matvælastofnun nú gefið út formlega tilkynningu um að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að neytendum stafi hætta af iðnaðarsaltinu.  Sjá hér.
 
Ölgerðin hefur verið farið vandlega yfir allar sínar vörur og tryggt það að allar vörur sem ætlaðar eru til matvælaframleiðslu hafi vottun þess efnis. Farið hefur verið skipulega yfir verklag með þeim starfsmönnum sem bera á þessum málum ábyrgð, til þess að tryggja fagmennsku og ábyrga afgreiðslu til matvælafyrirtækja. Ölgerðin mun ekki skella skuld á einstaka starfsmenn eða deildir fyrirtækisins með brottrekstri eða ákúrum. Starfsmenn bera sína ábyrgð í starfi, en yfirmenn og stjórn fyrirtækisins telja eðlilegt að verkferlar og gæðastjórn útiloki að andvaraleysi af þessu tagi geti viðgengist.
 
Það eru því forstjóri og aðrir stjórnendur Ölgerðarinnar sem biðja neytendur afsökunar á því að salt, sem fyrirtækið seldi til matvælaiðnaðar, hafði ekki formlega vottun til nota í matvælaframleiðslu og gat því vakið efasemdir neytenda um gæði og hollustu einstakra matvæla frá íslenskum fyrirtækjum.

Til baka