13.03.2014 | 22:15

Ölgerðin fær þekkingarverðlaun FVH

Ölgerðin þekkingarfyrirtæki FVH

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) hefur valið Ölgerðina sem þekkingarfyrirtæki ársins en Össur, Já og LS Retail voru tilnefnd til verðlaunanna.Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veitti verðlaunin.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Ölgerðin sé með einstaklega skýra stefnu og hafi náð eftirtektarverðum árangri í starfsemi sinni. Stefnan endurspeglar mikinn metnað en um leið sé stigið varlega til jarðar og þess gætt að fyrirtækið færist ekki of mikið í fang.  

„Ölgerðin er til fyrirmyndar í stjórnarháttum og fékk t.a.m. jafnlaunavottun VR á sl. ári og vinnur að því að jafna kynjahlutfall innan fyrirtækisins. Könnun á ánægju starfsmanna er framkvæmd fjórum sinnum á ári og hafa niðurstöður verið góðar.   Hvað varðar samfélagslega ábyrgð þá er starfandi samfélagsstjóri innan fyrirtækisins sem sinnir málaflokknum. Á síðasta ári voru 100 verkefni tengd samfélagsábyrgð í gangi, m.a. á sviði umhverfismála og samfélagsmála.

Þáttur rannsókna og þróunar hefur verið stór þáttur í starfi Ölgerðarinnar síðastliðin 100 ár og að sögn stjórnenda samofin starfsemi allra deilda fyrirtækisins. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á nýsköpun bæði hvað varðar vöruþróun og innri ferla. Það er eitt af markmiðum fyrirtækisins að ákveðið hlutfall af veltu sé af nýjum vörum,“ segir m.a. í rökstuðningi dómnefndar.

Við val á Þekkingarfyrirtæki ársins er leitað eftir áliti félagsmanna FVH en endanleg ákvörðun er í höndum dómnefndar. Í dómnefnd sátu Dögg Hjaltalín, stjórnarkona í FVH, Valdimar Halldórsson, stjórnarmaður í FVH, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður hjá Opna háskólanum og Ásta Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Sinnum heimaþjónustu.

Til baka