17.01.2014 | 13:56

Ölgerðin færir Landsbjörgu rúmar 16 milljónir

Rúmlega sextán milljónir króna söfnuðust til Slysavarnafélagsins Landsbjargar í sérstöku átaki Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar sem fólst í því að 10 krónur af hverri seldri flösku og dós af Malti rann beint til félagsins í tilefni af 100 ára afmæli fyrirtækisins.

Tilkynnt var um átakið í sérstökum söfnunarþætti í sjónvarpi 31. maí 2013 en þar skýrði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, frá því að frá og með 17. apríl sl, sem er formlegur afmælisdagur fyrirtækisins, myndu 10 krónur af hverri seldri flösku og dós af Malti fara til að styrkja Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Átakinu lauk nú um áramót og í dag afhentu Októ Einarsson, stjórnarformaður og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar, Herði Má Harðarsyni, formanni Slysavarnafélagsins Landsbjargar afraksturinn, 16.221.120 krónur, samkvæmt tilkynningu.

Til baka