13.12.2011 | 08:14

Ölgerðin kaupir 51% hlut í Mjöll-Frigg

Ölgerðin hefur fest kaup á 51% hlut í framleiðslufyrirtækinu Mjöll-Frigg. Mjöll-Frigg hefur þróað og framleitt hreinlætisvörur í áratugi fyrir Íslendinga og er eitt stærsta fyrirtækið á því sviði hérlendis. Framleiðsla hreinlætisvara og sala til stórnotenda verður með óbreyttu sniði í verksmiðjunni í Hafnarfirði en sala og dreifing á neytendavörum fyrirtækisins fer framvegis í gegnum í sölu- og þjónustukerfi Ölgerðarinnar. 
Mjöll-Frigg framleiðir margar algengustu hreinlætisvörurnar sem notaðar eru á íslenskum heimilum, svo sem Milda, Glitra, Þrif og Maxi-vörur fyrir bíla, svo fátt eitt sé nefnt.   Vörumerkin eru mörg hver gamalgróin og njóta virðingar og hollustu viðskiptavina. 
Mjöll og Frigg sameinuðust í eitt fyrirtæki árið 2004.  Mjöll hf. varð til árið 2001 við sameiningu hreinlætisvörudeildar Sjafnar hf. á Akureyri, Sáms í Kópavogi og Mjallar ehf. í Reykjavík, en þessi fyrirtæki voru öll rótgróin á hreinlætisvörumarkaði og eiga sér langa sögu - Sjöfn var stofnuð árið 1932, Mjöll árið 1942 og Sámur árið 1969.  Sápugerðin Frigg var stofnuð árið 1929 og hefur alla tíð verið í framleiðslu, sölu og dreifingu á hreinlætisvörum á Íslandi.

Bókhald og fjármálastjórnun verður í höndum Ölgerðarinnar og auk sölu- og markaðssetningar á neytendavöru. Breytingarnar munu hafa mér sér fækkun stöðugilda hjá Mjöll Frigg en Ölgerðin mun bæta við sig einum starfsmanni í markaðsdeild.  Framkvæmdastjóri Mjöll-Frigg er Kristján Grétarsson.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Til baka