13.03.2020 | 16:22

Ölgerðin með ítarlegar viðbúnaðaráætlanir sem tryggja öryggi

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur virkjað ítarlegar viðbúnaðaráætlanir sem miða að því að tryggja öryggi neytenda og starfsmanna fyrirtækisins í ljósi Covid-19 veirunnar. Auk hefðbundinna aðgerða á borð við að fylgja til hins ítrasta leiðbeiningum sóttvarnarlæknis, hefur fyrirtækið aukið fræðslu til starfsmanna um hreinlæti og þvott og öll þrif verið verulega aukin, ekki síst á öllum snertiflötum, hefur Ölgerðin ennfremur gripið til fjölda annarra aðgerða.

Má þar nefna að allar heimsóknir í fyrirtækið hafa verið takmarkaðar til muna og eru starfsmenn og viðskiptavinir hvattir til að nýta fjarfundabúnaði, tölvupósta og síma í staðinn. Þeir sem nauðsynlega þurfa að koma í heimsókn þurfa að svara ítarlegum spurningum sem miða að tilmælum sóttvarnarlæknis og ákvörðun um næstu skref tekin að þeim loknum.

Á sama tíma hafa ráðstafanir verið gerðar til að tryggja rekstraröryggi fyrirtækisins með því að skipta upp deildum sem hafa möguleika á að vinna fjarvinnu.

Aðgerðir sem snúa að framleiðslu og vöruhúsi

Ölgerðinni hefur, samkvæmt viðbragðsáætlun, verið skipt upp í fimm einingar með það að markmiði að lágmarka eins og kostur er möguleg smit milli starfstöðva. Einingarnar eru framleiðsla&vélstjórar, vöruhús, dreifing, þjónustudeild og skrifstofur og er enginn samgangur á milli þeirra. Þá hefur verið gripið til ráðstafana til að lágmarka samgang milli vakta og stöðufundir milli vakta hafa tímabundið verið lagðir niður.

Sölumenn og bílstjórar hafa fengið aukinn búnað til að gæta ítrasta hreinlætis við sína vinnu. Auk þess hefur reglum varðandi kvittun við móttöku vara verið breytt til þess að lágmarka áhættu á smiti á snertifleti.

Öruggt að neyta framleiðsluvara Ölgerðarinnar

Öryggi framleiðsluvara Ölgerðarinnar er tryggð , enda fer framleiðslan fram í öruggu og lokuðu kerfi þar sem fyllsta hreinlætis er gætt í hvívetna. Ölgerðin bendir á samantekt MAST um matvæli og kórónuveiruna hér en þar kemur fram að ekkert bendir til þess að kórónaveiran berist með matvælum skv. áliti Matvælaöryggisstofnunnar Evrópu (EFSA).

 

Starfsfólk Ölgerðarinnar er stöðugt að endurmeta þær aðgerðir sem eru í gildi og er unnið eftir tilmælum landlæknis og almannavarna til að tryggja öryggi allra viðkomandi.

 

Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar

Til baka