01.06.2013 | 15:43

Ölgerðin styrkir Landsbjörg

10 krónur af hverri Maltflösku renna til Landsbjargar á aldarafmæli Ölgerðarinnar.

Ölgerðin Egill Skallagrímsson, sem fagnar 100 ára afmæli sínu á þessu ári, hefur ákveðið að 10 krónur af hverri seldri flösku af Malti skuli renna til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Þetta tilkynnti Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í sérstakri sjónvarpssöfnun fyrir Landsbjörg.

„Ölgerðin hefur frá upphafi lagt áherslu á að gefa af sér og vera í nánu sambandi við samfélagið. Okkur fannst við hæfi að leggja góðu málefni lið á aldarafmælinu og við teljum að Landsbjörg eigi svo sannarlega skilið að njóta þess að Íslendingar drekka Malt.“

Andri Þór afhenti Herði Má Harðarsyni, formanni Landsbjargar, fyrsta hluta styrksins í beinni útsendingu Sjónvarpsins á föstudagskvöldið, ríflega 1.100.000 króna.

Á 100 ára afmælisdaginn, 17. apríl, tilkynntu Andri Þór og Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, að fyrirtækið ætlaði að beita sér sérstaklega í ýmsum samfélagsverkefnum á afmælisárinu og að 100 milljónum króna yrði varið til margvíslegra verkefna. Er óhætt að segja að verkefnið með Landsbjörgu sé það viðamesta.

„Við áætlum að Landsbjörg fái allt að 20 milljónir króna í sinn hlut haldi Íslendingar Maltdrykkju sinni óbreyttri. Við tókum þá ákvörðun að 10 krónur af hverri seldri flösku af Malti rynni beint til Landsbjargar frá og með 17. apríl og við vitum að þjóðin tekur þátt í þessu með okkur.“
 

Til baka