17.04.2013 | 12:58

Ölgerðin veitir 100 milljónum til samfélagsverkefna

Ölgerðin mun veita 100 milljónum króna til samfélagsverkefna á árinu en í ár er fyrirtækið 100 ára gamalt. Þetta kom fram á blaðamannafundi í morgun.

Ölgerð Egils Skallagrímssonar fagnar því í dag að 100 ár eru frá því að Tómas Tómasson stofnaði fyrirtækið í kjallara Þórshamars við Templarasund.  Fyrirtækið var þá starfrækt í tveimur herbergjum í kjallara hússins, sem Alþingi á í dag, en er nú í 20.000 fermetra húsnæði við Grjótháls.

Á fréttamannafundi í Þórshamri í dag tilkynntu Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri, að fyrirtækið ætlaði að beita sér sérstaklega í ýmsum samfélagsverkefnum á afmælisárinu.

„Ölgerðin er rótgróið fyrirtæki sem hefur frá upphafi lagt áherslu á að vera í góðu sambandi við þjóðina og að við viljum gefa af okkur og þakka þjóðinni þannig samfylgdina síðustu 100 árin,“segir Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar í tilkynningu.

„Við störfum af ábyrgð og það er hluti af okkar starfi að sinna samfélaginu og þakka fyrir okkur með því að gefa til baka. Á afmælisárinu munum við vinna að 100 verkefnum sem snúa að ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu og veitum 100 milljónum króna í margvísleg verkefni,“segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Til baka