15.09.2011 | 13:14

Pepsi-deildin er komin til að vera

Undirritaður hefur verið fjögurra ára samningur á milli Ölgerðarinnar og Sport Five (sem er rétthafi sjónvarpsréttar og nafnaréttar efstu deilda KSÍ í knattspyrnu) og verður hann í gildi út keppnistímabilið 2015. Deildin mun því heita Pepsi-deildin næstu fjögur árin að minnsta kosti. 

Áhugi á íslenskri knattspyrnu hefur farið stigvaxandi undanfarin ár. Beinar sjónvarpsútsendingar eru fleiri en áður, umfjöllun fjölmiðla er viðameiri, aðsóknarmet var slegið árið 2010 (160.000 áhorfendur) og gæði knattspyrnunnar hafa aukist. Pepsi vill leggja sitt af mörkum til þess að umgjörðin verði sem glæsilegust og að knattspyrna verði áfram vinsælasta íþróttagrein landsins. Leikir í Pepsi-deild karla og kvenna eiga að sameina fjölskyldur, hverfi og bæjarfélög í stuðningi við sitt lið.


Mikilvægi íþróttastarfs fyrir alla

 

Starf íþróttafélaganna fyrir samfélagið allt er mjög mikilvægt. Afreksfólk í Pepsi-deildum karla og kvenna er ungu knattspyrnufólki hvatning um að æfa meira og gera betur. Slíkar fyrirmyndir eru ómetanlegar ungu fólki og vel þekkt er forvarnargildi íþóttastarfs félaganna.

 

Frá undirrituninni

Efling íslenskrar knattspyrnu til framtíðar


Pepsi greiðir umtalsvert verðlaunafé til liðanna í Pepsi-deildunum, eða 9 milljónir króna sem skiptist jafnt á milli kvenna- og karladeildar. Íslandsmeistarar fá eina milljón í verðlaunafé, liðin í öðru sæti 700 þúsund kr. og svo fer upphæðin stiglækkandi niður í neðsta sæti sem gefur 200 þúsund krónur. Sama gildir um karla- og kvennadeildina. Það er því talsvert stór hluti af markaðsfé Pepsi sem Ölgerðin hefur valið að nýta til stuðnings íslenskri knattspyrnu.

Til baka