29.02.2016 | 15:22

Pepsi-deildin til næstu þriggja ára

365 ehf. og Ölgerðin Egill Skallagrímsson hafa samið um nafnarétt efstu deilda Íslandsmóts karla og kvenna í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Nafnið skal vera Pepsi-deildin og skulu merki og nafn mótsins verða áberandi á öllum viðburðum sem skipulagðir eru í tengslum við mótið. Þar skiptir þáttur íþróttafélaganna miklu máli.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, segir samstarf 365 og Ölgerðarinnar með Pepsi-deildina hafa verið afar farsælt liðin ár og því sé sérstaklega ánægjulegt að samningur hafi náðst um framhald þess næstu þrjú árin.

,,Við erum afar spennt fyrir komandi leiktíð og munum sýna fleiri leiki en nokkru sinni áður í beinni útsendingu á Sportstöðvum 365. Þetta verður því sannkölluð veisla frá fyrsta leik,“ segir Sævar Freyr.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, tekur undir að samstarfið síðastliðin 7 ár hafi verið einkar farsælt.

„Við erum afar ánægð og stolt að það skuli tryggt að Pepsi verði áfram með beina þátttöku í stærsta íþróttamóti landsins. Þegar þessi samningur er búinn að þá hefur Pepsi verið kostandi að efstu deildum karla og kvenna í áratug. Það er því heil kynslóð upprennandi fótboltamanna sem þekkir ekkert annað en að þeir bestu spila í Pepsi. Þetta ár er auðvitað stórmerkilegt í fótboltasögunni og það er alveg ljóst að áhugi almennings á fótbolta mun ná nýjum hæðum árið 2016. Það er því auðvitað stórkostlegt að framlengja samninginn á þessu merkilega fótboltaári.“

 

Til baka