29.07.2013 | 08:48

Söguganga um slóðir Ölgerðarinnar 8.ágúst

Í tilefni 100 ára afmæli Ölgerðarinnar mun Stefán Pálsson í samvinnu við Ljósmyndasafn Reykjavíkur bjóða upp á sögugöngu um slóðir Ölgerðarinnar í Reykjavík. Gengið verður um söguslóðir reykvískra gos- og ölgerðarmanna og staðnæmst við gamlar höfuðstöðvar Ölgerðarinnar.   

Ölgerðin Egill Skallagrímsson var stofnuð í apríl 1913 af Tómasi Tómassyni, upprunalega var framleiðslan í litlu kjallaraherbergi við Templarasund í miðbæ Reykjavíkur. Um 1920 var starfsemin flutt í hús sem var sérstaklega byggt fyrir starfsemi Ölgerðarinnar á Njálsgötu á reitnum milli Njálsgötu, Frakkastígs og Grettisgötu sem síðar hlaut nafnið „Ölgerðartorfan“. Í fyrstu var aðallega framleitt af Malt og öl en um 1930 fór að bera meira á gosdrykkjum með ávaxtabragði. Árið 1932 eignaðist Ölgerðin hús Þórs við Rauðarárstíg þar sem Ölgerðin hafði betur í samkeppni við Þór og ákveðið var að sameina fyrirtækin og stofna hlutafélag undir heiti Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar. Tómas Tómasson var langstærsti eigandinn félagsins og gegndi starfi framkvæmdastjóra. Fyrstu árin var lítil starfsemi á Rauðarárstíg, húsnæðið var aftur tekið í notkun þegar Ölgerðin hóf að brugga bjór fyrir herinn í stríðinu. Árið 1979 hófust svo framkvæmdir við nýtt og tæknilega fullkomið húsnæði Ölgerðarinnar við Grjótháls í Reykjavík en áfram var lengi framleiðsla við Njálsgötu. Húsnæðið við Grjótháls stækkaði svo á tíunda áratugnum og enn annað bættist við 2007. Á tímabili var fyrirtækið með starfsemi á 8 stöðum í Reykjavík en 2009 var öll starfsemin sameinuð á Grjóthálsi. 
 
Lagt verður af stað frá styttu Leifs Eiríkssonar á Skólavörðuholti kl. 20 og endað við gamla Ölgerðarreitinn í Þverholti. Áætlaður göngutími er um ein og hálf klukkustund.
 
Allir velkomnir, ekki missa af þessu skemmtilega tækifæri til að heyra Stefán miðla af því sem hann þekkir um sögu Ölgerðarinnar.
 
Til baka