01.11.2013 | 16:19

Sögulegur samningur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sögulegur samningur undirritaður:

SAMbíóin og Ölgerðin í samstarf           – Nú er það popp og Pepsí

Ölgerðin Egill Skallagrímsson og SAMbíóin hófu í dag samstarf sem felur í sér að SAMbíóin munu héðan í frá selja gosdrykki frá Ölgerðinni í kvikmyndahúsum sínum.

Óhætt er að fullyrða að samstarfið sé sögulegt því þetta er í fyrsta sinn í yfir þrjátíu ár sem SAMbíóin bjóða gosdrykki Ölgerðarinnar til sölu í kvikmyndahúsum sínum.

Það er okkur mikið ánægjuefni að hafa náð samningum við SAMbíóin enda er kvikmyndahúsakeðja þeirra gríðarlega sterk og þetta markar tímamót að mörgu leyti,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson.

Þetta er góður viðskiptasamningur fyrir báða aðila og við sjáum Ölgerðina í mikilli sókn. Fyrirtækið býður upp á breytt og gott vöruúrval og við hlökkum til samstarfsins,“ segir Árni Samúelsson, eigandi SAMbíóa.

SAMbíó hafa yfir 50% markaðshlutdeild á kvikmyndahúsamarkaðnum og bjóða 2.906 sæti í fimm kvikmyndahúsum í Reykjavík, Keflavík og á Akureyri.  SAMbíó voru fyrsta kvikmyndahúsið sem leyfði gestum að hafa gos með sér inn í sali og á næstu árum verða það drykkir frá Ölgerðinni, sem fagnar 100 ára afmæli sínu á þessu ári, sem verða á boðstólnum í kvikmyndahúsunum.

Samningur um þetta var undirritaður á hátíðarfundi Ölgerðarinnar í Þjóðleikhúsinu í dag og vottaði Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo samninginn við það tækifæri.

Um Ölgerð Egils Skallagrímssonar:

Ölgerðin er eitt stærsta fyrirtæki á sínu sviði og framleiðir, flytur inn, dreifir og selur matvæli og sérvöru af ýmsum toga. Þar starfa rúmlega 300 starfsmenn og velti fyrirtækið um 18 milljörðum króna. Helstu eigendur þess eru Auður 1 fagfjárfestasjóður og nokkrir stjórnendur fyrirtækisins.

Um Sambíó:

SAMbíóin eru stærsti dreifingar- og sýningaraðili kvikmynda á Íslandi og hefur svo verið í gegnum árin. SAMbíóin eru með umboð fyrir Disney, Warner, Paramount pictures og Dreamworks auk samninga við nokkur af stærstu Indie útgáfufyrirtækjum í greininni. Frá því að SAMbíóin opnuðu hafa um 18 milljónir gesta sótt það heim

Til baka