20.07.2017 | 08:33

Sykurlausir drykkir frá Ölgerðinni fram úr sykruðum

Ölgerðin Egill Skallagrímsson selur nú meira magn af sykurlausum drykkjum en sykruðum og er Kristall nú orðið stærsta vörumerki fyrirtækisins.  Algjör viðsnúningur hefur orðið á drykkjarvenjum Íslendinga síðustu árin, en sem dæmi má nefna að árið 2002 var einungis þriðjungur seldra drykkja frá Ölgerðinni sykurlaus.

Ölgerðin hefur verið leiðandi í sölu á gosdrykkjum á Íslandi og hefur fylgt vilja neytenda um að skipta æ meir úr hefðbundnum sykruðum drykkjum yfir í sykurlausa. Kolsýrt vatn er nú orðið stærsti vöruflokkur gosdrykkja og þar ber Kristall höfuð og herðar yfir aðra drykki hér á landi, enda tannvænn drykkur og inniheldur ekkert nema bragðefni í snefilmagni.

Í lok árs 2016 settum við Kristal með jarðaberja- og límónu bragði á markaðinn og hann sló samstundis í gegn. Kristall er vinsælasti sykurlausi drykkurinn  og svarar kalli neytenda um hollari kolsýrða drykki. Þá má nefna að sykurlaust Pepsi eða Pepsi Max er sá drykkur á gosdrykkjarmarkaði sem hefur verið í hvað mestri aukningu og hefur hlutdeild þess vörumerkis aldrei verið hærra,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Til baka