Skilmálar tækja

Hér er að finna tækjaskilmála Ölgerðarinnar varðandi lán og leigu á tækjum. Viðskiptavinir eru hvattir að kynna sér skilmálana. Með því að fá tæki frá Ölgerðinni til afnota samþykkir viðskiptamaður beinlínis og fellst á öll ákvæði þessara skilmála.

Almennir skilmálar
Um leigu, og eftir atvikum lán, á tækjum Ölgerðarinnar gilda eftirfarandi skilmálar.
Tæki samkvæmt skilmálum þessum er hvers konar tæki eða búnaður sem Ölgerðin lætur viðskiptamanni í té, s.s. kælar, bjórdælur, kaffivélar o.fl.  
Viðskiptamaður samkvæmt skilmálum þessum er sá sem tekur á leigu eða fær lánuð tæki hjá Ölgerðinni.
Með því að fá tæki frá Ölgerðinni til afnota samþykkir viðskiptamaður beinlínis og fellst á öll ákvæði þessara skilmála.

1.    Hið leigða/lánaða
1.1.    Viðskiptamaður fær til afnota þau tæki sem skráð eru á hann hverju sinni samkvæmt tækjalista Ölgerðarinnar.
1.2.    Viðskiptamaður hefur kynnt sér ástand tækjanna og sættir sig við það að öllu leyti. Viðskiptamaður ber ábyrgð á öllum skemmdum sem á tækjunum verða, án tillits til sakar, meðan tækin eru í umráðum hans. Viðskiptamaður tekur fulla ábyrgð á því að skila tækjunum í jafngóðu ástandi og hann tók við þeim í að teknu tilliti til eðlilegs slits vegna notkunar. Ölgerðinni er hvenær sem er heimilt fyrirvaralaust að framkvæma eða láta framkvæma skoðun á hinu leigða.
1.3.    Tækin eru eign Ölgerðarinnar. Viðskiptamaður má ekki selja, veðsetja, framleigja eða lána tækin eða ráðstafa þeim með öðrum hætti.
1.4.    Ölgerðin hefur heimild til að meta tækjaþörf viðskiptavinar á sex mánaða fresti í því skyni að tryggja að viðskiptavinur sé með hæfilegan fjölda tækja fyrir starfsemina.

2.    Afhending
Eftir afhendingu tækjanna eru þau á ábyrgð og áhættu viðskiptamanns. Viðskiptamaður skal bæta Ölgerðinni allt það tjón sem kann að vera á tækjunum meðan þau eru í vörslum hans, sem og allan kostnað sem leiðir af tjónsatburði.  

3.    Uppsetning   
Uppsetning á tækjunum er viðskiptamanni að kostnaðarlausu þegar nauðsynlegar raf- og vatnslagnir eru fyrir hendi. Viðskiptamaður skal sjá um að nauðsynlegar raf- og vatnslagnir séu fyrir hendi. Viðskiptamaður skal sjá til þess að lagnavinnunni sé lokið fyrir umsaminn uppsetningardag eða semur í tengslum við undirritun samningsins við Ölgerðina um að fyrirtækið taki að sér að tryggja að lagnavinnunni sé lokið á tilsettum tíma. Viðskiptamaður greiðir í báðum tilvikum kostnaðinn við slíka lagnavinnu.

4.    Greiðsla, aukahlutir   
Um leigugreiðslur fer eftir viðskiptasamningi aðila um kaup og sölu á vörum Ölgerðarinnar. Greiðsluskilmálar varðandi aukahluti eru þeir sömu og samið hefur verið um í viðskiptasamningi aðila. Í tilviki lánaðra tækja er gjald vegna notkunar á tækjum er innifalið í endurgjaldi vegna keyptra vara samkvæmt viðskiptasamningi aðila.

5.    Samningstími
Samningstími fer eftir viðskiptasamningi aðila um kaup og sölu á vörum Ölgerðarinnar. Hugsanlegar ofgreiðslur vegna þjónustuáskriftar eru aðeins endurgreiddar ef Ölgerðin segir upp samningnum.

6.    Uppsögn
Uppsögn á skilmálum þessum fer eftir viðskiptasamningi aðila um kaup og sölu á vörum Ölgerðarinnar. Við lok slíks samnings, hvort sem er vegna uppsagnar, riftunar, eða að öðrum ástæðum, skal viðskiptamaður án tafar skila Ölgerðinni tækjum eða öðru sem Ölgerðin lánaði honum. Sé tækjunum ekki skilað á réttum tíma er Ölgerðinni heimilt að sækja munina með eða án atbeina sýslumanns og/eða dómstóla, án frekari fyrirvara eða tilkynninga til viðskiptamanns.

7.    Þjónusta og viðhald  
Ölgerðin eða fulltrúi hennar tekur að sér tæknilegt viðhald og þjónustu samkvæmt neðangreindu. Samningurinn felur í sér þjónustu, akstur innan dagvinnutíma á tæknideild okkar ásamt vinnulaunum og varahlutum. Eftirfarandi er undanþegið viðhaldi og þjónustu Ölgerðarinnar: tjón sem stafar af rangri notkun, skorti á þrifum, of miklu álagi, bilanir í vatns- eða raflögnum, eða tjóni vegna gáleysis eða vanrækslu af hálfu viðskiptamanns eða annarra á hans vegum. Ef tæknimenn eru kallaðir til aðstoðar þegar bilun tækja stafar af ofangreindum atriðum greiðir leigutaki gjald fyrir útkall samkvæmt gjaldskrá Ölgerðarinnar.

8.    Ábyrgð Ölgerðarinnar   
Ölgerðin verður ekki gerð ábyrg vegna rekstrartaps eða annars beins eða óbeins tjóns, hvort sem tjónið verði rakið til ástands tækjanna, galla, bilana, seinkunar á þjónustu, viðgerðum, afgreiðslu varahluta eða rekstrarvöru, skemmda eða skemmdarverka, ófullnægjandi eftirlits eða annarra atvika sem leiða til þess að tækin vinna ekki eðlilega. Tjón á munum hvort sem það er beint eða óbeint og sem er að rekja til tækjanna sjálfra er ekki á ábyrgð Ölgerðarinnar heldur ávallt á ábyrgð viðskiptamanns. Tjón á mönnum eða munum sem er að rekja til tækjanna er ávallt á ábyrgð viðskiptamanns.

9.    Viðgerðir, breytingar á tækjum  
Viðskiptamanni er ekki heimilt að gera breytingar á tækjunum eða láta aðra gera við þau en tæknimenn eða fulltrúa Ölgerðarinnar. Bili eða skemmist tæki skuldbindur viðskiptamaður sig til að tilkynna Ölgerðinni um atburðinn án tafar. Ölgerðin getur hvort heldur sem er afhent viðskiptamanni nýtt tæki eða látið gera við það.

10.    Notkun
Viðskiptamaður ber sjálfur ábyrgð á réttri notkun og daglegu viðhaldi tækjanna samkvæmt leiðbeiningum og öðru er tengist notkun tækjanna, s.s. að notkun þeirra uppfylli kröfur stjórnvalda um notkun slíkra tækja í húsnæði viðskiptamanns.

11.    Viðhald   
Ekki er heimilt að byggja inn tækin eða staðsetja þau þannig á eign leigutaka eða þriðja aðila að hætta sé á að tækin eða vörur Ölgerðarinnar rýrist eða skemmist.

12.    Skil á tækjum
Viðskiptamaður skal skila tækjunum í jafngóðu ástandi og hann tók við þeim í að teknu tilliti til eðlilegs slits vegna notkunar. Viðskiptamaður skal sömuleiðis sjá til þess að hafi verið þrifin við skil. Um skil á vörum fer eftir viðskiptasamningi aðila. Frystivörur og áteknar pakkningar eru ekki teknar aftur.

13.    Vanefndir, riftun
Um vanefndir og riftun fer eftir viðskiptasamningi aðila. Ölgerðinni skal hins vegar ávallt heimilt að fjarlægja tæki án fyrirvara verði tækin fyrir skemmdum eða ef þau eru notuð á annan hátt en samið er um, á meðan þau er í umráðum viðskiptamanns.

14.    Framsal réttinda   
Ölgerðinni er heimilt að framselja þriðja manni eignarrétt sinn að tækjunum og réttindi og skyldur samkvæmt skilmálum þessum. Skyldur Ölgerðarinnar sem birgja og með tilliti til þjónustu og tæknilegs viðhalds eru þó óbreyttar gagnvart viðskiptamanni enda þótt slíkt framsal hafi átt sér stað. Ekki er heimilt hvorki fyrir né eftir slíkt framsal að láta hugsanlegar kröfur viðskiptavina á hendur Ölgerðinni sem birgja ganga upp í vangreiddar skuldir samkvæmt skilmálum þessum eða setja þær fram á hendur þeim þriðja manni sem tók við framsalinu. Viðskiptamanni er með öllu óheimilt að framselja réttindi samkvæmt skilmálum þessum nema að fengnu skriflegu samþykki Ölgerðarinnar.

15.    Tilkynningar
15.1.    Allar tilkynningar, reikningar og reikningsyfirlit frá Ölgerðinni til viðskiptamanns teljast réttilega sendar ef þær eru sendar á það heimilisfang sem viðskiptamaður tilkynnti félaginu síðast.
15.2.     Þar sem gert er ráð fyrir í samningi þessum að annar hvor aðili skuli senda gagnaðila tilkynningu, hverju nafni sem nefnist, þá skal hún send með sannanlegum hætti til þess heimilisfangs sem aðilar hafa gefið upp eða lögheimili þeirra eins og það er skráð þegar tilkynningin er send af stað.  Sé þess gætt skal tilkynning hafa þá þýðingu og þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa jafnvel þótt hún komi afbökuð, of seint eða alls ekki til viðtakanda.

16.    Ágreiningur og varnarþing   
16.1.    Komi upp ágreiningur milli Ölgerðarinnar og viðskiptamanns skulu deiluaðilar leita leiða til að leysa ágreiningsefnið.
16.2.    Deilur sem upp kunna að koma um efndir, framkvæmd eða túlkun skilmálanna, og aðilum tekst ekki að leysa, skal útkljá fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.