Bera er nýtt nafn á móðurfélagi samstæðu matvælafyrirtækisins Ölgerðarinnar

19. desember 2025

Eins og greint var frá fyrir helgi er Bera nýtt nafn á móðurfélagi samstæðu matvælafyrirtækisins Ölgerðarinnar. Breytingin er hluti af undirbúningi að breyttu skipulagi samstæðunnar.
Andri Þór Guðmundsson forstjóri fyrirtækisins segir aðspurður að Ölgerðin sé ekki að fara neitt og verði áfram nafn drykkjarvöruhluta fyrirtækisins. Vörumerkið verði áfram á öllum umbúðum. „Þetta er fyrst og fremst skipulagsbreyting," segir Andri í samtali við Morgunblaðið og vill fyrirbyggja allan misskilning. „Okkur dettur ekki í hug að skipta út Ölgerðarnafninu, síður en svo. Ölgerðin hefur verið með þjóðinni síðan árið 1913 og verður um ókomna tíð.“

Spurður um nýja nafnið segir Andri að það sé dregið af móður landnámsmannsins Egils Skallagrímssonar, en Ölgerðin heitir einmitt fullu nafni Ölgerð Egils Skallagrímssonar. „Svo hét dóttir hans líka Bera,“ útskýrir Andri.

Andri segir spurður um hvort hugmyndin að nýja nafninu hafi kviknað fljótt að henni hafi fljótt skotið upp kollinum. „Það fer vel á því að vera með sögulega skírskotun í heitinu. Það styrkir hugrenningatengslin við Ölgerðina.“

Andri segir að breytingin snerti viðskiptavini lítið sem ekkert. „Mesti sýnileiki nafnsins verður líklega í Kauphöllinni þar sem Bera verður skráða fyrirtækið. Nú munu hluthafar eiga hluti í Beru og óbeint í Ölgerðinni, eins og í öðrum vörumerkjum samstæðunnar.“

Dótturfélög Ölgerðarinnar eru heildverslunin Danól og vatnsfyrirtækið Iceland Spring, sem Bera á 51% hlut í á móti erlendum aðilum. Þá bættust Gæðabakstur og Kjarnavörur við sem dótturfélög í samstæðuna 1. desember sl. „Það er virkilega ánægjulegt. Ég býð þessi fyrirtæki og starfsfólk þeirra velkomið.“

Forstjórinn segir að skipulagsbreytingin sé sú sama og önnur stórfyrirtæki hafa gert á liðnum árum eins og Festi, Össur og Styrkás.
Hann segir að breytingin eigi að senda þau skilaboð út á markaðinn að Bera viji áfram sækja fram með áframhaldandi ytri vexti og bæta við sig vörumerkjum. „Við erum að auka skýrleika og fókus svo allir, bæði starfsfólk og aðrir viti í hvaða átt við erum að fara.“

Andri segir aðspurður að umskiptin, þar sem dótturfélögin fá meira sjálfstæði, opni á allskonar möguleika. „Bera þarf ekki endilega að eiga 100% í öllum félögum. Við erum að senda skilaboð um að við getum bætt við okkur eða selt frá okkur fyrirtæki í framtíðinni, þó ekkert slíkt sé á dagskránni. Þetta gefur möguleika.“

Í tilkynningu Ölgerðarinnar í síðustu viku var rætt um afkomu þriðja ársfjórðungs. Þar kom m.a. fram að afkoma Iceland Spring hafi verið verulega undir væntingum.
Andri segir aðspurður að tollahækkun í Bandaríkjunum hafi sett sölu úr skorðum. „En góður árangur innanlands vegur upp á móti. Fjórðungurinn var góður innanlands og tekjuvöxtur 7%, sem er umfram aðra fjórðunga ársins.“

Andri segir að Iceland Spring þurfi að gera betur á næsta ári. „2026 lítur mun betur út en 2025. Við höfum náð að hækka verð. Svo voru kostnaðarsamir einskiptisliðir á árinu sem er að líða sem ekki verða á næsta ári. Við erum búin að gera ráðstafanir til að bæta reksturinn. Við erum stöðugt að afla nýrra viðskiptavina í vatninu.“
Spurður út í það sérstaklega segir Andri að Iceland Spring sé selt í stórum verslanakeðjum í Bandaríkjunum. „Stefna okkar er skýr. Við erum ekki að byggja upp eigin vörumerki heldur vinnum við með keðjum og birgjum eins og 7-Eleven þar sem okkar vatn er hluti af vörumerkinu Skýra. Walgreens verslanakeðja selur vatnið svo undir öðru vörumerki. Iceland Spring er selt sem dýrari úrvalsvara. Það kemur skýrt fram á umbúðunum að vatnið kemur frá Íslandi úr okkar eigin vatnslind. Við leggjum líka talsverða áherslu á PH-gildi vatnsins á umbúðunum sem er óvenju lágt eða 8,88.“
Andri kveðst sáttur við 2025 og síðasta fjórðung í rekstrinum. „Við erum bjartsýn fyrir næsta ár.“

Í tilkynningunni var sérstaklega getið um góðar viðtökur við nýjum vörumerkjum í jólabjór. „Þeir hafa gengið frábærlega. Tuborg Lille Jul og Xmas Boli seldust til dæmis upp mjög snemma, sem og Gull Jólalight. Við eigum enn eitthvað eftir af Tuborg Julebrygg. Okkar hlutdeild í jólabjór er að styrkjast mikið,“ segir Andri en Tuborg Julebrygg frá dönsku bruggverksmiðjunni Carlsberg hefur lengi notið mikilla vinsælda hér á landi og er vinsælasti bjórinn fyrir þessi jól.
Andri segir að Tuborg Lille Jul sé íslensk hugmynd. „Við þróuðum hann með leyfi frá Carlsberg í Danmörku. Við erum því fyrsta og eina landið sem er með bjórinn í sölu. Hann er glúteinlaus og léttari en Tuborg Julebrygg. Við fengum einmitt yfirmenn Carlsberg sérstaklega í heimsókn á dögunum til að smakka bjórinn. Þeir voru mjög ánægðir.“
Um létta lágkolvetna- og glúteinlausa bjóra segir Andri aðspurður að Gull Light sé lang söluhæsti bjórinn á íslenska markaðnum í dag. „Boli x er vaxandi í þessum flokki og er kominn í fjórða sæti,“ segir Andri að endingu.