Fyrsta lestarferðin á Íslandi var farin þann 17. apríl þegar fyrsta grjóthlassið var sótt úr Öskjuhlíð til hafnargerðarinnar í Reykjavík. Sama dag hóf Tómas Tómasson rekstur Ölgerðar Egils Skallagrímssonar í tveimur kjallaraherbergjum í Þórshamri við Templarasund.
Umsvifin voru ekki mikil í fyrstu. Suðuketillinn var einungis 65 lítrar og flöskunum var lokað með því að þrýsta tappa ofan á með flötum lófa og binda fyrir með vír. Fyrsta framleiðsluárið seldi Ölgerðin um 38 þúsund lítra, mest Maltextrakt og Hvítöl. Íbúar Reykjavíkur voru þá um 13 þúsund talsins.