Frá 1913 til dagsins í dag

Ölgerðin var stofnuð árið 1913 og hefur yfir aldarreynslu í framleiðslu drykkja. Vöruframboð hefur þróast í takt við þarfir viðskiptavina okkar. Við leggjum áherslu á nýsköpun og rækt við grunngildin okkar: Jákvæðni, áreiðanleika, hagkvæmni og framsækni.

Tímalínan okkar

1913

Ölgerðin stofnuð

Tómas Tómasson stofnar Ölgerðina Egil Skallagrímsson.

1913

Fyrsta lestarferðin á Íslandi var farin þann 17. apríl þegar fyrsta grjóthlassið var sótt úr Öskjuhlíð til hafnargerðarinnar í Reykjavík. Sama dag hóf Tómas Tómasson rekstur Ölgerðar Egils Skallagrímssonar í tveimur kjallaraherbergjum í Þórshamri við Templarasund.

Umsvifin voru ekki mikil í fyrstu. Suðuketillinn var einungis 65 lítrar og flöskunum var lokað með því að þrýsta tappa ofan á með flötum lófa og binda fyrir með vír. Fyrsta framleiðsluárið seldi Ölgerðin um 38 þúsund lítra, mest Maltextrakt og Hvítöl. Íbúar Reykjavíkur voru þá um 13 þúsund talsins.

1914

Þegar Ölgerðin Egill Skallagrímsson hóf starfsemi sína var annað slíkt fyrirtæki nýstofnað í höfuðstaðnum: Ölgerðarhús Reykjavíkur. Samkeppnin var hatrömm og náði hámarki þegar Tómas Tómasson fékk Ásgeir Torfason efnaverkfræðing landsins til að bera saman maltextrakt innihald hvítölsins frá brugghúsunum tveimur og birta niðurstöðurnar í dagblöðunum.

Ölgerðarhús Reykjavíkur fór halloka í samanburðinum og spunnust af því meiðyrðamál milli fyrirtækjanna með þungum ásökunum um atvinnuróg og miklum skaðabótakröfum. Á árinu 1915 gafst Ölgerðarhús Reykjavíkur loks upp á samkeppninni og hætti störfum.

Viðskiptavinir óttast smit! Heilbrigðisstofnanir voru frá upphafi stór viðskiptavinur Ölgerðarinnar, enda þótti maltölið flestra meina bót. Þar á meðal var Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi. Þótt holdsveiki sé raunar einn minnst smitandi sjúkdómur sem þekkist, óttaðist almenningur hann mjög. Sá orðrómur komst á kreik að varasamt gæti verið að drekka öl úr flöskum sem áður kynnu að hafa verið sendar á hælið. Til að róa neytendur fékk Ölgerðin Landlækni til að votta að hreinsunin á flöskunum væri eftir ströngustu reglum og engin hætta á smiti.

1916

Samkvæmt söluskýrslum afgreiddi Ölgerðin 25 flöskur af Pilsner til Kaupfélags Hafnarfjarðar þann 29. júní. Frá því í júní 1916 hafði fyrirtækið selt undirgerjað léttöl undir þessu heiti, en áður hafði Ölgerðin selt svipaðan drykk með nafninu „Egils mjöður“. Enn var tækjabúnaður fyrirtækisins þó ekki nægilega fullkominn til að framleiða undirgerjaðan léttbjór sem staðist gat samanburð við erlendan varning.

1917

Tómas Tómasson hélt til Kaupmannahafnar á árinu 1915 til að læra ölgerð við Bryggeriet Stjernen sem og í Þýskalandi. Þar dvaldi hann að mestu næstu tvö árin. Heimkominn árið 1917 festi hann kaup á fyrstu húseigninni við Njálsgötu á reitnum milli Njálsgötu, Frakkastígs og Grettisgötu sem síðar hlaut nafnið „Ölgerðartorfan“. Næstu árin byggði hann þar upp fullkomið ölgerðarhús, gerjunar- og átöppunaraðstöðu, meðal annars með því að kaupa notaðan tækjabúnað frá Þýskalandi sem var í rjúkandi rúst vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar.

1924

Fullkominn gerkjallari var útbúinn á Ölgerðartorfunni við Njálsgötu og komið upp nýjum gerjunartönkum úr áli, sem þá var nýlunda í bruggheiminum. Þýskur bruggmeistari, Edward Meister, var fenginn til starfa. Með allt þetta að vopni tókst að endurbæta Pilsnerinn með þeim árangri að innan tveggja ára hafði innfluttu dönsku öli verið rutt út af markaðnum.

Blaðagreinar og merkimiðar

Blaðagreinar og smáauglýsingar frá tímabilinu 1913-1924. Merkimiðar frá ýmsum tímum af nokkrum elstu framleiðsluvörum Ölgerðarinnar.

Blaðagreinar og merkimiðar

1926

Egill krýndur

Kristján X heimsækir Ísland og drekkur Pilsner.
Ölgerðin verður konunglegt brugghús.

1926

Sala Ölgerðarinnar skríður í fyrsta sinn yfir milljón flösku markið á einu ári. Það eru tíu flöskur á hvern íslending. ¾ hlutar sölunnar eru í 35 cl flöskum en fjórðungurinn í 65 cl flöskum. Flöskuskortur var stöðugt vandamál og var heildsöluverð flöskunnar það sama og innihaldsins.

Kristján kemur í opinbera heimsókn til Íslands. Dönsku blaðamennirnir í fylgdarliði konungs kunnu vel að meta Egils Pilsnerinn og drukku hann alla ferðina. Í kjölfarið fær Ölgerðin rétt til að kalla sig „konunglegt ölgerðarhús“.

1928

Á fimmtán ára afmæli Ölgerðarinnar skrifar Gísli Guðmundsson lítið kver um sögu fyrirtækisins og ölgerðarsögu Íslands almennt. Gísli liggur um þær mundir á banabeði og deyr skömmu eftir ritun kversins.

1929

Hópur athafnamanna stofnar Ölgerðina Þór og blæs til stórsóknar á drykkjarvörumarkaði. Fyrirtækið festi kaup á ófullkomnum ölsuðutækjum frá Danmörku, reisti verksmiðju við Rauðarárstíg og hóf árið eftir framleiðslu á mörgum tegundum léttöls og gosdrykkja.

Ölgerðin Egill Skallagrímsson brást við samkeppninni með því að kaupa gosdrykkjaverksmiðjuna Síríus. Áður hafði Tómas Tómasson ekki viljað fara inn á gosdrykkjamarkaðinn í virðingarskyni við vin sinn Gísla Guðmundsson stofnanda Sanitas. Gísli lést árið 1928, aðeins 44 ára að aldri og hafði þá raunar lokið afskiptum af Sanitas nokkrum árum fyrr.

1930

Ölgerðin eignast sína fyrstu bifreið en áður hafði fyrirtækið haft hesta í þjónustu sinni. Bíllinn kom að góðum notum á Alþingishátíðinni sama ár, þar sem Ölgerðin hafði mikið umleikis og seldi gríðarmikið af drykkjarföngum.

1931

Stríðið milli Egils og Þórs harðnar enn. Ölgerðin greip til þess ráðs að koma sér upp kæliskápum sem lánaðir voru kaupmönnum sem seldu vörur fyrirtækisins. Í lok árs voru ísskápar Ölgerðarinnar 55 talsins og þar með drjúgur hluti allra slíkra tækja í landinu.

1932

Ölgerðin Þór verður undir í samkeppninni og hættir framleiðslu. Ákveðið var að sameina fyrirtækin og stofna hlutafélag undir heiti Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar. Tómas Tómasson var langstærsti eigandinn í félaginu og gegndi starfi framkvæmdastjóra. Tækjabúnaður Ölgerðarinnar Þórs kom nýja fyrirtækinu að litlum notum og húsnæði og lóðir við Rauðarárstíginn nýttust lítið á fjórða áratugnum, sem var erfiður íslenskum fyrirtækjum vegna efnahagskreppu.

1933

Íslendingar samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu afnám áfengisbannsins. Smygl, heimabrugg, áfengisútskriftir lækna og léttvínsinnflutningur frá helstu saltfisk viðskiptalöndum höfðu í raun gert bannlögin marklaus. Með nýju lögunum var áfengt öl eftir sem áður bannað og tillögur um að leyfa það fengu ekki brautargengi.

Stjórn Ölgerðarinnar hittist á fundi og samþykkti að hækka verð á öli fyrirtækisins. Tók stjórnin þó fram að hækkunin á maltinu væri ekki jafn mikil og eðlilegt hefði verið: „til þess að sjúklingum og börnum yrði unnt að nota þessa öltegund á sama hátt og áður.“

1934

Ölgerðin festir kaup á Gosdrykkjaverksmiðjunni Kaldá af Sælgætisgerðinni Nóa. Kaldá gat rakið sögu sína til 1898 og var því elsta gosdrykkjagerð landsins. Rekstur fyrirtækisins var þungur enda kaupgeta almennings lítil. Stöðugt var þó reynt að brydda upp á nýjungum í framleiðslu, svo sem með nýjum gosdrykkjablöndum eða umbúðum.

1935

Fyrsti orkudrykkurinn? Mysuprótíndrykkurinn Cabeso var framleiddur hjá Ölgerðinni á árunum 1933 til 1940 og naut um skeið nokkurra vinsælda. Cabeso var auglýst sem íþróttadrykkur: „Það svalar best, auk þess stælir það vöðvana og gerir þyngstu þraut að leik.“

1940

Bretar hernema Ísland. Yfirmenn hernámsliðsins kvörtuðu snemma yfir bjórleysinu og að íslenska brennivínið færi illa í hermennina. Stjórnvöld brugðust skjótt við og samþykkt voru lög sem heimiluðu ölgerð fyrir herinn. Ölgerð Egils Skallagrímssonar hóf framleiðslu á bjór sem hlaut fljótlega nafnið Polar Ale og síðar Polar Beer. Ölgerðin fór fram í húsnæði gömlu Þórs-húsunum við Rauðarárstíg, sem staðið höfðu að mestu ónotuð frá sameiningu fyrirtækjanna 1932.

1944

Stóra flöskumálið! Árið 1944 kallaði rannsóknarlögreglan Kristínu Dahlsted, kunnustu veitingakonu Reykjavíkur til skýrslutöku. Stjórnendur Ölgerðarinnar höfðu komist yfir flöskur merktar fyrirtækinu með torkennilegu innihaldi, sem seldar höfðu verið í veitingastofu Kristínar í Tryggvagötu. Við efnarannsókn Atvinnudeildar Háskólans kom í ljós að ekki var um gosdrykki að ræða heldur djúsblöndu.

Ölgerðin kærði veitingakonuna til lögreglu og við húsleit fundust átján slíkar flöskur til viðbótar. Kristín Dahlsted viðurkenndi að hafa blandað safa úr þykkni og tappað á merktar flöskur. Hún bar við kjánaskap og samdi um að greiða sekt í ríkissjóð gegn því að málið yrði látið niður falla.

1945

Kóla-drykkir taka völdin. Á millistríðsárunum mátti öðru hvoru sjá kóla-drykki á vörulistum íslensku gosdrykkjagerðanna. Þar fór þó langmest fyrir drykkjum með ýmis konar berjabragði. Í heimsstyrjöldinni átti sér hins vegar stað varanleg breyting á gosdrykkjasmekk þjóðarinnar, þar sem kóla-drykkir öðluðust stærsta markaðshlutdeild og gosdrykkir úr ýmsum tilbúnum bragðefnum ruddu hefðbundnari tegundum úr vegi.

1947

Spur-drykkurinn auglýstur í Vikublaðinu Íslendingi: „Dásamaður jafnt á Íslandi sem í Ameríku, – jafnt á Norðurlandi sem Suðurlandi. – Þar kemst engine hreppapólitík að.“ Ölgerðin Egill Skallagrímsson samdi við gosdrykkjarisann Canada Dry árið 1945 um framleiðslurétt á vörum fyrirtækisins. Spur-Cola stóð alla tíð stóru kóla-drykkjunum tveimur að baki í sölu, en átti þó sína unnendur.

1951

Bruggað fyrir Kanann. Þegar heimsstyrjöldinni lauk og erlendur her hélt aftur til síns heima, lauk jafnframt bjórframleiðslu Ölgerðarinnar í bili. Þegar bandarískur her settist að á Keflavíkurflugvelli á grundvelli varnarsamningsins, voru ný lög samþykkt sem heimiluðu bruggun fyrir herstöðina og erlend sendiráð í höfuðstaðnum. Sú framleiðsla var þó mun umfangsminni en verið hafði á stríðsárunum.

1954

Sinalco snýr aftur. Á árunum fyrir heimsstyrjöld framleiddi Ölgerðin lítilræði af gosdrykknum Sinalco, sem upprunnin var í Þýskalandi. Framleiðslan féll niður í stríðinu en 1954 gátu Íslendingar á ný gætt sér á sítrónugosdrykknum, sem þá hafði fengið nýjar og skrautlegar flöskur.

1955

ÞJÓÐARSVALADRYKKURINN.

Egils appelsín kemur á markað. Tekur landann með trompi.

Appelsínið kemur til sögu. Ölgerðin hóf gosdrykkjaframleiðslu árið 1930. Umsjón hennar var falin sextán ára unglingi, Sigurði Sveinssyni, sem vakið hafði athygli Tómasar Tómassonar fyrir vinnuhörku og ákveðni. Starfaði Sigurður hjá fyrirtækinu næstu 57 árin.

Fyrsta aldarfjórðunginn voru ýmsar tilraunir gerðar til að útbúa appelsínugosdrykki, en engin þeirra átti roð í Sanitas appelsínið. Þetta olli Ölgerðarmönnum talsverðu hugarangri. Árið 1955 bjó Sigurður til blöndu sem samstundis féll í kramið hjá Íslendingum og hefur upp frá því gnæft yfir aðra slíka drykki. Óvíst er hvort unnt væri að halda íslensk jól án appelsíns og maltöls.

Maltið fær undanþágu. Einhverjar hatrömmustu kjaradeilur Íslandssögunnar voru sex vikna verkfall Dagsbrúnar og Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík. Verkfallið hafði lamandi áhrif á flestum sviðum atvinnulífsins og harkan var mikil. Þó var veitt undanþága frá verkfallinu til að tryggja að spítalar og aðrar heilbrigðisstofnanir fengju maltöl fyrir sjúklinga sína.

1957

Mánudagsblaðið upplýsir að „Asni“ sé vinsælasti drykkurinn á öldurhúsum Reykjavíkur. „Er oss tjáð að blandan sé þannig: tvö staup af vodka, ein flaska af „Ginger ale“, sítrónusneið – hrært saman í stóru glasi ásamt ísmola. Hefur sala á vodka og Ginger ale aukizt mjög síðustu mánuði.“

Efnagerð Akureyrar kynnir til sögunnar nýjan gosdrykk, Co Ro-Mix. Síðar var nafninu breytt í Thule Mix, sem framleitt var undir merkjum Sana á Akureyri. Sana var keypt upp af Sanitas og var nafn drykksins stytt í Mix. Frá 1992 hefur Ölgerðin séð um framleiðslu þessa vinsæla gosdrykks.

1959

Tímaritið Vikan gerði úttekt á „Agli sterka“, bjórframleiðslu Ölgerðarinnar. Forstjórinn Tómas Tómasson lýsti þar skoðunum sínum á hvernig best væri að hátta framleiðslunni ef áfengt öl yrði leyft. „Hér væri best að brugga 3,2% bjór, almenningur hefur ekkert við sterkara að gera.“

Ekki taldi Tómas að mikill hagnaður yrði af sölu á sterku öli, en faglega yrði það þó ánægjulegra en léttölið. Bjór var að hans mati betri kostur en áfengisblandaðir gosdrykkir, en vinsældirnar yrðu takmarkaðar. „Unglingum þykir ölið vont, og það verður aldrei tízkufyrirbæri meðal kvenfólks að drekka bjór.“

1960

Vísir flytur fréttir af stórauknu heimabruggi landsmanna. Meðal þess sem blaðið nefndi var hversu vinsælt það væri að kaupa hvítöl á kúta og láta gerjast uns hærri áfengisstyrk væri náð. Spáði Vísir að ÁTVR yrði af miklum tekjum vegna þessa.

1962

Tappagjaldið hækkað. Verð á gosdrykkjum hækkaði á árinu 1962 vegna hækkana á tappagjaldinu svokallaða. Gjaldi þessu var komið á árið 1958 og var sérstakur skattur á öl- og gosdrykkjaframleiðendur. Voru tekjurnar eyrnamerktar til húsnæðismála þroskahefts fólks og runnu til Styrktarfélags vangefinna. Gosdrykkjafyrirtækin kvörtuðu sáran undan skattheimtunni og töldu óeðlilegt að þessari atvinnugrein væri einni ætlað að standa undir hinum mikilvæga málaflokki.

1967

Nýtt átöppunarhús Ölgerðarinnar tekið í notkun við Rauðarárstíg. Eftir byggingu þess fluttist stærstur hluti ölframleiðslunnar þangað, en ölsuðan sjálf og forgerjun á pilsner og bjór hélt áfram á gamla staðnum.

Stjórn Ölgerðar Egils Skallagrímssonar kemur saman til neyðarfundar. Fundarefnið var greinarstúfur sem birst hafði í blaðinu Frjáls þjóð fáeinum dögum fyrr, þar sem farið var hörðum orðum um Egils Pilsnerinn sem kallaður var „súrfúlt glundur“ og gerður úr menguðu Gvendarbrunnavatni. Eftir miklar umræður varð niðurstaðan sú að umrætt blað nyti ekki þess álits að tilefni væri til þess að bregðast við skítkastinu.

1968

Pommac er sænskur epladrykkur sem fundinn var upp í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og var auglýstur sem óáfengt vín fyrir heldra fólk. Heitið var samsuða úr nafni hins kunna kampavínsframleiðanda Pommery og koníaks, þar sem það freyddi og var látið þroskast í viðartunnum. Ölgerðin framleiddi Pommac með góðum árangri á fjórða áratugnum. Reynt var að kynna það til sögunnar á ný árið 1968 en fáeinum árum síðar var framleiðslunni hætt.

1969

Bjórútrás í Vesturheimi? Iðnaðarráðuneytið og sendiráð Íslands í Bandaríkjunum könnuðu möguleikann á að hefja stórútflutning á íslenskum bjór til Norður-Ameríku. Sendiráðið hafði mikla trú á verkefninu, þannig seldist norski bjórinn Ringnes vel, þótt enginn gæti borið fram nafnið. „Allt sem er ”Imported” hér í Bandaríkjunum selst vel. Írar hafa lengi selt hingað “Guinness” með góðum árangri.“

Mælti sendiráðið með að íslenski bjórinn yrði framleiddur í nafni Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar, „því að þá má auglýsa á flöskumiðanum, að verksmiðjan sé stofnuð fyrir ævalöngu“. Nafn bjórsins yrði að velja í samvinnu við auglýsingamenn, en í fljótu bragði mætti ætla að Polar-Beer hentaði vel. Ekki væri hins vegar skynsamlegt að markaðssetja Víkinga-bjór eða Leifs Eiríkssonar-bjór, því Bandaríkjamenn af spænskum eða ítölskum uppruna myndu fúlsa við slíku.

1973

Í tilefni af sextíu ára afmæli Ölgerðarinnar var komið á legg Styrktarsjóði Tómasar Tómassonar ölgerðarmanns. Tilgangur hans var að styrkja eða heiðra starfsmenn sem unnið hefðu lengi hjá fyrirtækinu eða létu af störfum vegna aldurs eða veikinda.

1977

Skoðanakönnun um bjórmálið leiðir í ljós að 64% landsmanna voru andvígir sölu á áfengu öli en 37% hlynnt. Þessar tölur snerust hratt við á næstu árum, líklega í tengslum við auknar utanlandsferðir Íslendinga.

1978

Tómas Tómasson, stofnandi Ölgerðarinnar, lést níræður að aldri. Hann bar hitann og þungan af rekstri fyrirtækisins frá stofnun þess og fram yfir miðjan sjöunda áratuginn, en synir hans Jóhannes og Tómas Agnar tóku við keflinu. Jóhannes var forstjóri Ölgerðarinnar frá 1975 til 2000.

1979

Nýjar höfuðstöðvar

Framkvæmdir hefjast við nýjar höfuðstöðvar og fullkomna verksmiðju Ölgerðarinnar á Grjóthálsi.

1979

NÝJAR HÖFUÐSTÖÐVAR.
Framkvæmdir hefjast við nýjar höfuðstöðvar og fullkomna
verksmiðju Ölgerðarinnar á Grjóthálsi.

Framkvæmdir hefjast við nýjar höfuðstöðvar Ölgerðarinnar á Grjóthálsi 7-11. Við bygginguna var miðað við algjöra endurnýjun á öllum tækjabúnaði með stóraukna sjálfvirkni að leiðarljósi. Fyrsta áfanga lauk á árinu 1985 og fluttist þá hluti starfseminnar upp eftir.

1983

Veitingastaðurinn Gaukur á Stöng opnar í miðborg Reykjavíkur. Á boðstólum var svokallað „bjórlíki“, þar sem blandað var saman pilsner og sterku áfengi.

1985

Nýr átöppunarsalur Ölgerðarinnar tekinn í notkun á Grjóthálsi. Með nýjum og fullkomnum vélum snarfækkaði handtökunum við flöskuhreinsun, átöppun og röðun. Í gömlu verksmiðjunni í Þverholti voru starfsmenn 123, en rúmlega sjötíu á nýja staðnum.

1988

Gosdrykkjaverksmiðjan Sanitas hóf sölu á gosi í áldósum á árinu 1987 og snarjók þegar markaðshlutdeild sína. Vífilfell og Ölgerðin áttu ekki annars úrkosti en að fylgja í kjölfarið árið eftir. Fjárfestingin var stór biti fyrir Ölgerðina sem var nýbúin að ráðast í stórbyggingar og kaup á nýjum vélum.

Ölgerðin hefur framleiðslu á RC-Cola. Drykknum var ætlað að fylla skarðið sem Spur-Cola skildi eftir, en framleiðslu þess hafði verið hætt fáeinum misserum fyrr. RC-Cola var markaðssett sem ódýr valkostur við stærri kóla-drykkina og var tekið upp á þeirri nýbreytni að selja það í 1 líters plastflöskum. RC-Cola hvarf úr framleiðslulínunni þegar Ölgerðin tók við umboðinu fyrir Pepsi nokkrum árum síðar.

1989

Sala á áfengum bjór heimiluð á ný eftir 74 ára bann. Mikið var um dýrðir á Bjórdaginn, 1. mars. Ölgerðin kynnti til sögunnar lagerbjórinn Egils Gull, sem seldur var í verslunum ÁTVR. Samkvæmt reglum verslunarinnar skyldi allur bjór vera seldur í 33 cl. dósum og óheimilt var að kaupa bjór í minna magni en sex saman í kippu.

1992

Ölgerðin kaupir Gosan, sem var gosdrykkjahluti fyrirtækisins Sanitas. Þar með varð Ölgerðin framleiðandi Pepsi Cola og 7-up á Íslandi. Jafnframt var ákveðið að halda áfram framleiðslu á ávaxtadrykknum Mix

„Víst ávalt þeim vana halt, að vera hress og drekka malt.“ Fyrir jólin 1992 birti Ölgerðin nokkrar auglýsingar fyrir malt og appelsín með Flosa Ólafssyni leikara. Í einni þeirra var snúið út úr Heilræðavísum Hallgríms Péturssonar. Yfirmönnum Þjóðkirkjunnar var ekki skemmt og fengu þeir RÚV til að stöðva birtingu auglýsingarinnar. Í kjölfar málsins var ráðist í prentun veggspjalds með óbjöguðum Heilræðavísum sálmaskáldsins sem Ölgerðin sendi öllum bekkjardeildum grunnskólanna á landinu.

1993

Gullið stækkar. Nýjar umbúðir Egils Gull-bjórsins kynntar til sögunnar. 33 cl. dósirnar hurfu af markaði en í staðinn komu 50 cl. dósir. Afleiðingin varð mikil söluaukning á Egils Gulli, sem náði þar með sterkri markaðshlutdeild sem haldist hefur æ síðan. Aðrir bjórframleiðendur og innflutningsaðilar fylgdu fljótlega í kjölfarið.

1994

Egils Kristall, kolsýrt drykkjarvatn með sítrónubragði, kemur á markað og slær þegar í gegn. Drykkurinn var hugmynd forstjórans Jóhannesar Tómassonar og Ágústs Óskars Sigurðssonar, sem lét ráðast í framleiðsluna þrátt fyrir miklar efasemdir markaðsmanna sem höfðu litla trú á að unnt væri að selja Íslendingum slíka vöru.

1997

Tuborg jólabjórinn er í fyrsta sinn fluttur til landsins. Í Danmörku kom Tuborg jólabjórinn fyrst á markað árið 1981 og varð með tímanum ómissandi þáttur af dönsku jólahaldi. Frá árinu 2011 hefur bjórinn verið bruggaður í húsum Ölgerðarinnar.

2000

ÞÁTTASKIL VIÐ ALDAMÓT.
Afkomendur Tómasar Tómassonar selja Ölgerðina,
sem verið hafði í eigu fjölskyldunnar í 87 ár.

Framkvæmdum við nýtt ölsuðuhús Ölgerðarinnar á Grjóthálsi lýkur um áramótin 1999/2000. Við þessi tímamót ákváðu erfingjar Tómasar Tómassonar að ljúka afskiptum sínum af fyrirtækinu, sem verið hafði í eigu fjölskyldunnar í tæp níutíu ár. Jóhannes Tómasson lét jafnframt af störfum eftir að hafa gegnt forstjóraembættinu í aldarfjórðung.

2005

Íslenskt bygg í bjórinn. Ölgerðin notar í fyrsta sinn íslenskt bygg við bjórgerð sína. Byggið var ræktað á Leirá í Borgarfirði og notað í þorrabjór fyrirtækisins.

2008

Sameining Ölgerðarinnar og heildsölufyrirtækisins Danól. Við sameininguna varð til eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði matvælaframleiðslu og innflutnings.

2009

Bjórskólinn hefur göngu sína. Þar fá fróðleiksþyrstir nemendur svör við öllum spurningum sínum um töfraheima bjórsins.

2010

Örbrugghúsið Borg tekur til starfa. Það er rekið innan vébanda Ölgerðarinnar og hefur það að markmiði að framleiða sem fjölbreyttastar tegundir eðalbjórs. Fyrsta afurð Borgar, Bríó, var húsbjór í Ölstofu Kormáks og Skjaldar. Bríó hefur sankað að sér verðlaunum á alþjóðlegum bjórhátíðum og er nú framleiddur í aðalbrugghúsi Ölgerðarinnar.

2013

Ölgerðin fagnar aldarafmæli. Indra Nooyi, þá forstjóri Pepsico kemur í heimsókn af því tilefni.

2014

Ölgerðin fær jafnlaunavottun

2015

Framleiðsla Carlsberg fer nú fram hjá Ölgerðinni á Íslandi.

ÍMARK veitir Ölgerðinni Markaðsverðlaun ársins.

2019

Danól tekur til starfa að nýju með skýran fókus á innflutning mat- og sérvara.

Collab kemur á markað.

2022

Ölgerðin skráir sig á aðalmarkað Nasdaq.

Brák fer í rekstur og nýtt hús opnar – sem eykur afkastagetu verulega.

Danól kaupir matvörudeild Ásbjörns Ólafssonar og styrkir þannig stöðu sína á matvörumarkaði.

2023

Ölgerðin hlýtur titilinn „Partner of the Year“ frá Carlsberg.

Pepsi Max er mest seldi gosdrykkur á Íslandi.

Ölgerðin hlýtur Hinsegin vottun.

Mist kemur á markað.

2024

Collab er verðmætasta drykkjarvörumerkið á Íslandi.

2025

Danól flytur stóreldhúshlutann í nýtt vöruhús við Köllunarklettsveg.

Blaðagreinar, merkimiðar og myndskeið

Blaðagreinar og smáauglýsingar frá tímabilinu 1926 - 1940. Merkimiðar frá tímabilinu 1926 - 1939. Kvikmynd frá árinu 1930 sem sýnir framleiðslu Ölgerðarinnar. Smelltu á myndina til að skoða hana stærri.