Collab í yfir þúsund verslunum í Austurríki

1. desember 2025

Íslenski virknidrykkurinn Collab hefur sannarlega fest sig í sessi síðustu ár. Íslendingar drekka hann í miklu magni og nú heldur útrásin áfram. Morgunblaðið hafði af því spurnir á dögunum að Collab væri að finna í stórmörkuðum í Austurríki. Þetta staðfestir Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar sem framleiðir drykkinn.

„Það stemmir. Collab er komið á markað í Austurríki – mætt í gin ljónsins, eða öllu heldur nautsins,“ segir forstjórinn sem vísar þar til að Austurríki er heimaland Red Bull.

Austurríki er þar með þriðja landið sem herjað er á með Collab auk Danmerkur og Þýskalands. „Það má segja að við séum á undan áætlun í að tryggja vörunni listanir, samningar um að komast í vöruval verslana hafa gengið enn betur en lagt var upp með. Þannig er Collab þegar fáanlegt í vel yfir þúsund verslunum í Austurríki sem er ívið meira en við sáum fyrir okkur á þessum tíma,“ segir Andri.

Meðal þeirra verslanakeðja sem selja Collab í Austurríki eru Billa, Billa Plús og Mpreis. Andri segir að varan sé nú þegar fáanleg í um það bil tífalt fleiri verslunum í Austurríki en finna má samanlagt á Íslandi. Samningar liggja svo fyrir um frekari dreifingu Collab á næstu mánuðum. „Það er hins vegar alltof snemmt að hrósa sigri – en þetta byrjar vel.“

Andri er spurður hvort ekki sé erfitt að koma íslenskum vörum í sölu erlendis. Hann segir að almennt hafi gengið ótrúlega vel að tryggja útsölustaði.

„Í þessum bransa er almennt gríðarlega hörð samkeppni og það getur tekið langan tíma að komast í reynslusölu hjá helstu verslunum. Collab er hins vegar í senn einstök vara og með einstaka sögu sem er að ryðja veginn fyrir okkur. Maður sér og heyrir að sjálfbærnihliðin á vörunni, kollagen úr íslenskum sjávarafurðum, vegur þungt í þessu. Vitund um virkni kollagens hefur verið að aukast mikið á flestum mörkuðum og verslunareigendur vilja bjóða upp á hollari valkosti.“

Gallery Image
Gallery Image
Gallery Image
Gallery Image