Sjaldgæft er að neysluvörur lifi góðu lífi í meira en öld og ekkert lát sé á vinsældum þeirra. Sú er þó raunin með Egils Pilsner en nýverið var umbúðum þessa vinsæla léttbjórs breytt í fyrsta skipti í rúm 20 ár.
Það var árið 1916 sem Egils Pilsner var fyrst framleiddur og hefur léttbjórinn verið til sölu hjá Ölgerðinni allar götur síðan, eða í 109 ár.
Þegar Kristján tíundi Danakonungur kom til Íslands árið 1926 er hermt að kóngur og hans fylgdarlið hafi komist í kynni við Egils Pilsner og kneifað duglega. Í kjölfarið var Ölgerðin útnefnd „konunglegt ölgerðarhús“ af konungi sjálfum og öðlaðist rétt til að kalla sig slíkt. Kórónan í lógói Ölgerðarinnar í framhaldi er vísun í þetta.
Nýjar umbúðir Egils Pilsner hafa vakið athygli aðdáenda drykkjarins. En af hverju að breyta þessari sígildu hönnun?
„Við vildum heiðra sögu þessa stórmerkilega léttbjórs. Það er gríðarlega sjaldgæft að neysluvörur lifi í meira en öld eins og Egils Pilsner sem er ekki bara elsti íslenski léttbjórinn heldur líka sá mest seldi,“ segir Jóhannes Páll Sigurðarson vörumerkjastjóri Egils Pilsner.
„Hönnunarsaga Ölgerðarinnar og annarra íslenskra neysluvara er mjög skemmtileg og það er gaman að leggjast yfir þróun útlits vara eins og Egils-varanna. Það er þó þannig að hún mætti vera betur skrásett og væri verðugt verkefni að ná utan um hönnunarsöguna og gera henni sómasamleg skil.
Þegar við tókum þátt í kvikmyndaverkefnunum Verbúðinni og Vigdísi með Vesturporti settum við talsverða vinnu í að rannsaka þau tímabil sem þar voru tekin fyrir og nýttist sú vinna að einhverju leyti við þessa hönnun.
Það er alltaf gaman og áhugavert að setja sig inn í vöru- og umbúðaþróun fyrri tíma og nálgast þær pælingar sem voru í gangi þá.“ segir Jóhannes Páll.
Finnur Malmquist hönnuður á Ennemm auglýsingastofu sá um að endurhanna útlitið.