Ölgerðin og Skógræktarfélag Reykjavíkur í samstarf um skógrækt í Lundarreykjardal

27. október 2023

Ölgerðin og Skógræktarfélag Reykjavíkur hafa undirritað samning um skógrækt á 140 hektara svæði á jörð félagsins í Lundarreykjardal. Áætlað er að á næstu 5 árum verði um 350.000 trjáplöntur gróðursettar og upp vaxi fallegur útivistarskógur.

„Ölgerðin hefur sett sér skuldbindingar um vísindalega samþykkt markmið sem felur í sér að ná niður kolefnisspori frá rekstri fyrirtækisins og binda það sem eftir stendur með vottuðum kolefniseiningum. Við hefðum mögulega getað keypt land undir verkefnið en ákváðum þess í stað að fara þá leið að styðja við Skógræktarfélagið með fjármögnun á spennandi verkefni þeirra í Lundarreykjardal,“ segir Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar.

„Skógræktarfélag Reykjavíkur festi nýverið kaup á ríflega 600 hekturum lands í Lundarreykjardal til að rækta þar fjölbreyttan útivistarskóg fyrir almenning. Við stefnum jafnframt að því að hluti skógarins verði nýttur á sjálfbæran hátt. Það er ánægjulegt að geta hafið uppgræðslu og skógrækt í Lundarreykjadal af krafti, þökk sé þessu samstarfi,“ segir Jóhannes Benediktsson, formaður stjórnar Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Landið í Lundarreykjardal er í dag skilgreint sem lélegt landbúnaðarland en liggur vel við sólu og skilyrði fyrir skógrækt ágæt. Sá hluti landsins sem í dag er ræktarland, verður áfram nýttur í landbúnaði og ekki verður gróðursett í votlendi. Tegundir sem gefist hafa vel í skógrækt, t.d. í Heiðmörk, Elliðaárdal og víðar verða notaðar, svo sem birki, lerki, fura og víðir. Eftir því sem svæðið verður betur gróið og meira skjól, verða kröfuharðari tegundir gróðursettar. Til dæmis reynir, garðahlynur, berja- og skrautrunnar og jafnvel askur og eik.

Nánari upplýsingar veita:

Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur 893-2200

Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar okto.einarsson@olgerdin.is / 412 8000