Chat with us, powered by LiveChat

Gæðastefna

Jafnréttisstefna

Mannauðsstefna

Samfélagsábyrgð stefna

Persónuverndarstefna

Persónuverndarstefna - umsækjendur um störf

Umhverfisstefna

Vafrakökustefna

Siðareglur

Eineltisstefna

Gæðastefna

 

Markmið

 

Að tryggja að starfsemi Ölgerðarinnar sé í samræmi við markmið og gildi fyrirtækisins. 

 

Ábyrgð

 

Forstjóri Ölgerðarinnar er ábyrgur fyrir viðhaldi og endurskoðun stefnunnar.  Forstöðumaður Vöruþróunar og gæðadeildar Ölgerðarinnar ber ábyrgð á að starfsmenn fyrirtækisins þekki stefnuna og framfylgi henni.

 

Forstöðumaður Vöruþróunar og gæðadeildar ber ábyrgð á gæðamálum og matvælaöryggi hjá Ölgerðinni en í fjarveru hans leysa starfsmenn Vöruþróunar og gæðadeildar hann af. 

 

Framkvæmd

 

Gæðastjórnunarkerfi Ölgerðinnar er vottað samkvæmt ISO 9001 og ISO 22000.

 

Gæði eru einn mikilvægasti hluti starfsemi okkar.  Hugsunin um gæði og matvælaöryggi á að vera samofin öllum okkar aðgerðum og erum við vottaður matvælaframleiðandi samkvæmt ISO 22000/FSSC staðlinum. Til að viðhalda og efla  þá gæðaímynd sem Ölgerðin hefur byggt upp verðum við að tryggja að:

 

 • Vörur okkar séu fyrsta flokks og gæðum ekki fórnað
 • Vörumeðhöndlun sé í samræmi við bestu þekktar aðferðir á hverjum tíma.
 • Við leitumst við að tryggja að heildarupplifun viðskiptavina af samskiptum við okkur fari fram úr væntingum þeirra, hvort sem um innri eða ytri viðskiptavini er að ræða.
 • Að starfsemi okkar sé í samræmi við lög og reglugerðir og að við uppfyllum þær kröfur sem gerðar eru til okkar af viðskiptavinum og hagsmunaaðilum.
 • Að  alltaf sé leitað leiða til umbóta, því við lærum af mistökum og hugsum án takmarkana. 
 • Hafa á að skipa vel menntuðu og þjálfuðu starfsfólki sem sýni fagþekkingu, færni, metnað og frumkvæði við störf sín. 
 • Stuðla að ánægju starfsmanna og vellíðan í starfi, að starfsmenn fái tækifæri til að afla sér nýrrar þekkingar, tileinka sér nýjar aðferðir og miðla upplýsingum og þekkingu. 

 

Stefnur, gildi og gæðamarkmið fyrirtækisins eru yfirfarin að minnsta kosti árlega auk þess sem farið er yfir helstu úrbótaverkefni síðasta árs og niðurstöður þeirra. Yfirferðin fer fram á fundi gæðaráðs.
Forstjóri tryggir að yfirferðin fari fram. 

Jafnréttisstefna

Markmið

 

Markmið stefnunnar er að koma í veg fyrir kynbundin launamun og að Ölgerðin sé eftirsóttur vinnustaður í huga allra. Stjórnendur Ölgerðarinnar skulu fylgja jafnréttisstefnu fyrirtækisins og vinna að auknu jafnrétti innan þess.

 

Ábyrgð

 

Forstjóri er ábyrgðarmaður stefnunnar en mannauðsstjóri ber ábyrgð á að starfsmenn fyrirtækisins þekki stefnuna og framfylgi henni

 

Framkvæmd

 

 1. Ölgerðin skuldbindur sig til að mismuna ekki starfsmönnum í launum og hlunnindum með ómálefnalegum hætti á grundvelli kyns.
 2. Við ráðningu eru laun ákvörðuð með tilliti til ábyrgðar starfs, álags og sérhæfni. Við ákvörðun launa er verklagsreglum jafnlaunavottunar fylgt.
 3. Ráðning, laun og önnur umbun byggir ekki á grundvelli kyns, kyngervis, kynhneigðar, kynvitundar, kynferðis, kynþáttar, stjórnmálaskoðana, trúar eða öðrum ómálefnalegum þáttum. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna.
 4. Störf sem laus eru standa öllum opin, jafnt körlum og konum. Aldrei skal gefa í skyn í starfsauglýsingum að óskað sé eftir starfsmanni af öðru kyninu fremur en hinu nema til að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinar.
 5. Allir starfsmenn njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar. Sama gildir um möguleikann til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum.
 6. Stefnt er að því að jafna kynjahlutföll innan starfshópa fyrirtækisins.
 7. Störf og verkefni skulu skipulögð þannig að starfsmenn geti sem best samræmt vinnu og einkalíf.
 8. Öllum er gert auðvelt að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða eftir leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.
 9. Til að mæla hlítni er launaúttekt framkvæmd árlega. Þá eru borin saman jafn verðmæt störf og athugað hvort munur mælist á launum kynjanna. Einnig eru framkvæmdar innri úttektir. Árlega er farið yfir gildandi lög og reglugerðir um jafnlaunamál og staðfest á fundi hlítni við lög.
 10. Ölgerðin uppfyllir og vinnur eftir ÍST 85:2012 staðlinum.
 11. Ölgerðin skuldbindur sig til að bregðast við frávikum og vinna þannig að viðhaldi jafnlaunakerfis með stöðugum umbótum og eftirliti.
 12. Ölgerðin líður ekki einelti, fordóma, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða kynbundið ofbeldi og hefur sett stefnu og áætlun gegn því.

 

Forstjóri Ölgerðarinnar ber ábyrgð á að skilgreina stefnu fyrirtækisins. Mannauðsstjóri ber ábyrgð á innleiðingu, umbótum og hlítni við sett viðmið, sem og að tryggja að stjórnendur þekki stefnuna og uppfylli öll skilyrði.

Mannauðsstefna

Framtíðarsýn Ölgerðarinnar er að vera fyrsta val viðskiptavina og neytenda. Lykillinn að þeirri sýn felst í mannauði fyrirtækisins, þar sem jákvæðni, áreiðanleiki, hagkvæmni og framsækni eru höfð að leiðarljósi.

 

Mannauðsstefnan miðar að því að allar ákvarðanir sem teknar eru, og snúa að sambandi Ölgerðarinnar og starfsfólks þess, skapi forsendur til að framtíðarsýn fyrirtækisins verði að veruleika.

 

Markmið mannauðsstefnunnar er að stuðla að starfsánægju starfsfólks og að Ölgerðin hafi yfir að ráða hæfu, vel menntuðu og áhugasömu starfsfólki sem sameiginlega skapar metnaðarfullt og jákvætt vinnuumhverfi. 

 

Gott og ánægt starfsfólk er grunnurinn að vel reknu fyrirtæki. Starfsmenn Ölgerðarinnar eru því ein af helstu auðlindum fyrirtækisins og mannauðsstefnan felur í sér að vera stefnumarkandi og styðjandi við gildi Ölgerðarinnar og stuðla þannig að samkeppnishæfni fyrirtækisins.

 

Við leggjum áherslu á að starfsfólk Ölgerðarinnar lifi gildi fyrirtækisins og að skapa grundvöll til að svo megi verða. Það gerum við með öflugri mannauðsdeild sem stuðlar m.a. að:

 

 • faglegum vinnubrögðum við ráðningar og móttöku nýliða
 • því að leggja áherslu á fræðslu og starfsþróun
 • því að huga að öryggi, heilsu og aðbúnaði starfsmanna
 • öflugu upplýsingaflæði
 • stöðugum umbótum og framsækni
 • faglegri ráðgjöf og stuðningi við stjórnendur
 • því að framkvæma reglulega kannanir, greiningar og mælingar
 • faglegri frammistöðustjórnun

 

Á þennan hátt sköpum við skemmtilegan vinnustað og sterka liðsheild sem nær markmiðum Ölgerðarinnar sem eru til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar, samfélagið, starfsfólk og hluthafa.

Samfélagsábyrgð stefna

Markmið

 

Að tryggja að starfsmenn og stjórnendur Ölgerðarinnar séu meðvitaðir um þá samfélagsábyrgð sem Ölgerðin ber og að starfsemi fyrirtækisins endurspegli gildi og markmið þess.

 

Ábyrgð

 

Forstjóri Ölgerðarinnar ber ábyrgð á viðhaldi og framkvæmd verklagsreglunnar.

 

Öllum starfsmönnum sem koma að verkefninu ber skylda til að fylgja henni.

 

Framkvæmd

 

Ölgerðin leggur sig fram við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt, samfélag og samstarfsaðila með því að vinna að stöðugum umbótum á rekstri, umbótum á ferlum og vinnuvenjum sem hafa í för með sér einhverskonar áhrif á umhverfi, samfélag, markaðinn eða rekstur Ölgerðarinnar. Samfélagsverkefnum fyrirtækisins er skipt í fjóra flokka; umhverfi, samfélag, markaðurinn og fyrirtækið sjálft. 

 

Hagsmunaaðilar Ölgerðarinnar skiptast  í átta hópa en þeir eru samstarfsaðilar, eigendur, viðskiptavinir, starfsmenn, stjórnvöld, neytendur, birgjar og þjónustuaðilar. Ölgerðin leggur sig fram við að upplýsa hagsmunaaðila um starfsemina og er það afar mikilvægt að veita öllum hagsmunaaðilum áheyrn og virkja þá til samvinnu. Þessir átta hópar eru taldir sem lykilhagsmunaaðilar fyrirtækisins en að sjálfsögðu vinnur Ölgerðin einnig með hagsmunaaðilum á borð við háskólasamfélagið, samkeppnisaðilum og félagssamtökum til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið.

 

Fylgst er með framgangi verkefna með mælingum þar sem við á  að minnsta kosti einu sinni á ári.  Gefa skal út skýrslu um stöðu og árangur einu sinni ári og hafa aðgengilega á ytri vef fyrirtækisins, bæði á íslensku og ensku. Stöðu og árangur skal kynna starfsmönnum fyrirtækisins.

 

Ölgerðin vinnur eftir viðmiðum Global Compact og skilar árlega inn framgangsskýrslu til þeirra.

 

Ölgerðin tekur þátt í því að ná sameiginlegum loftslagsmarkmiðum Íslands með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun kolefnisspors til 2030. Fylgt var eftir stuðningunum með undirritun á yfirlýsingu um loftslagsmál 16. Nóvember 2015 í Höfða.

 

Ölgerðin tekur virkan þátt í að setja sér verkefni sem að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna.

Persónuverndarstefna

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. (einnig vísað til „félagsins“ og „okkar“) hefur einsett sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem unnið er með innan félagsins. Persónuverndarstefna þessi nær til persónuupplýsinga er varða einstaklinga sem eru í viðskiptum við félagið, þeir sem sækja námskeið, verktaka, tengiliði sem koma fram fyrir hönd lögaðila í viðskiptum við félagið, neytendur sem hafa samband við félagið, tengiliði birgja félagsins sem og aðra tengiliði (hér eftir sameiginlega vísað til „þín“).

 

Persónuverndarstefnu þessari er ætlað að upplýsa þig um hvaða persónuupplýsingum félagið safnar, með hvaða hætti félagið nýtir slíkar persónuupplýsingar og hverjir fá aðgang að upplýsingunum.

 

Ef þú ert í vafa um það hvernig stefna þessi varðar þig, vinsamlega hafðu samband við upplýsingatæknistjóra fyrir frekari upplýsingar. Samskiptaupplýsingar upplýsingatæknistjóra koma fram í lok stefnunnar.

 

1. Tilgangur og lagaskylda

 

Ölgerðin leitast við að uppfylla í hvívetna persónuverndarlöggjöf og er stefna þessi byggð á lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga („persónuverndarlög“), með síðari breytingum.

 

2. Hvað eru persónuupplýsingar?

 

Persónuupplýsingar í skilningi stefnu þessarar eru hvers kyns upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling, þ.e. upplýsingar sem hægt er að rekja beint eða óbeint til ákveðins einstaklings. Gögn sem eru ópersónugreinanleg teljast ekki persónuupplýsingar.

 

3. Persónuupplýsingar sem Ölgerðin vinnur um viðskiptavini

 

Við söfnum og varðveitum ýmsar persónuupplýsingar um viðskiptavini okkar. Ólíkum persónuupplýsingum kann að vera safnað um þig eftir því hvort þú sért sjálf/ur í viðskiptum við félagið eða hvort þú komir fram fyrir hönd lögaðila í viðskiptum við félagið.  

 

Eftirfarandi eru dæmi um upplýsingar sem Ölgerðin vinnur um einstaklinga í viðskiptum við félagið:

 

 • samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, símanúmer og netfang;
 • kennitala;
 • upplýsingar um lánshæfi;
 • upplýsingar úr samskiptum;
 • reikningsupplýsingar;
 • viðskiptasamningar; og
 • upplýsingar vegna innheimtuaðgerða.

 

Eftirfarandi eru dæmi um upplýsingar sem Ölgerðin vinnur um einstaklinga sem koma fram fyrir hönd lögaðila í viðskiptum við félagið:

 

 • samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, símanúmer og netfang;
 • netfang vegna þjónustukönnunar;
 • samskiptasaga;
 • upplýsingar vegna sjálfskuldarábyrgðar; og
 • upplýsingar um lánshæfi prókúruhafa. 

 

Auk framangreindra upplýsinga kann Ölgerðin einnig að safna og vinna aðrar upplýsingar sem viðskiptavinir eða forsvarsmenn/tengiliðir viðskiptavinar láta félaginu sjálfir í té sem og upplýsingar sem eru félaginu nauðsynlegar vegna starfsemi þess. Upplýsingarnar eru unnar fyrst og fremst til að geta efnt samninga við viðskiptavini félagsins, en einnig á grundvelli lögmætra hagsmuna okkar af því að tryggja að viðskiptavinir félagsins fái góða þjónustu, s.s. með rannsókn á kvörtunum og framkvæmd þjónustukannanna.

 

Að meginstefnu til aflar Ölgerðin persónuupplýsinga beint frá viðskiptavini eða tengilið hans. Upplýsingar kunna þó jafnframt að koma frá þriðju aðilum, s.s. Credit Info í þeim tilfellum þar sem einstaklingur óskar eftir að vera í reikningsviðskiptum við félagið. Sé persónuupplýsinga aflað frá þriðja aðila í öðrum tilvikum mun félagið leitast við að upplýsa viðskiptavini sína um slíkt.

 

Upplýsingar um viðskiptavini og forsvarsmenn/tengiliði viðskiptavina eru varðveittar í 4 ár frá lokum viðskipta. Sé um að ræða upplýsingar sem falla undir bókhaldslög eru þær varðveittar í 7 ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Upplýsingar úr kvörtunum viðskiptavina kann að vera nauðsynlegt að varðveita lengur, t.d. ef kvörtunin gefur til kynna að heilsutjón hafi orðið.

 

4. Persónuupplýsingar sem Ölgerðin vinnur um þá sem sækja námskeið

 

Við skráningu á námskeið óskum við eftir upplýsingum frá þér um nafn og tengiliðaupplýsingar í þeim tilgangi að halda utan um skráningu.

 

Upplýsingarnar eru unnar annars vegar á grundvelli samnings þíns við Ölgerðina um þátttökuá námskeiði, en hins vegar á grundvelli samþykkis.  

 

Upplýsingar um nafn og tengiliðaupplýsingar eru ekki varðveittar lengur en í 4 ár frá því að námskeið átti sér stað. Netföng eru varðveitt á póstlista þar til samþykki er dregið tilbaka. Þér er ávallt heimilt að afturkalla samþykki þitt.

 

5. Persónuupplýsingar sem Ölgerðin vinnur um tengiliði birgja

 

Vinnsla persónuupplýsinga um tengiliði birgja kann að vera nauðsynleg til að efna samning félagsins við viðkomandi birgja, en félagið hefur einnig lögmæta hagsmuni af slíkri vinnslu í þeim tilgangi að einfalda samskipti og bæta samstarf við birgja. Upplýsingarnar sem um ræðir eru eftirfarandi:

 

 • samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, símanúmer og netfang;
 • starfsheiti; og
 • upplýsingar úr samskiptum.

 

Auk framangreindra upplýsinga kann Ölgerðin einnig að safna og vinna aðrar upplýsingar sem tengiliðir láta félaginu sjálfir í té. Upplýsingarnar koma að meginstefnu til beint frá tengiliði, en þær kunna jafnframt að koma frá sjálfum birgjanum.

 

Upplýsingum um tengiliði er eytt eða þeim breytt þegar félagið fær vitneskju um að breytingar hafa orðið á tengiliðaupplýsingum. Framangreindar upplýsingar eru ekki varðveittar lengur en í 4 ár frá lokum samnings milli félagsins og birgja, nema um sé að ræða upplýsingar sem falla undir gildissvið bókhalds- og tollalaga.

 

6. Persónuupplýsingar sem Ölgerðin vinnur um verktaka

 

Við söfnum persónuupplýsingum um verktaka sem starfa fyrir félagið en vinnsla upplýsinganna kann að fara eftir eðli þeirra verkefna sem viðkomandi sinnir fyrir félagið.

 

Eftirfarandi eru dæmi um upplýsingar sem Ölgerðin kann að safna um þig sem verktaka, svo félagið geti uppfyllt skyldur sínar á grundvelli verktakasamnings:

 

 • samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, kennitala, netfang og símanúmer;
 • upplýsingar um menntun, þjálfun og reynslu; og
 • reikningsupplýsingar.

 

Auk framangreindra upplýsinga kann Ölgerðin einnig að safna og vinna aðrar upplýsingar sem verktakar láta félaginu sjálfir í té sem og upplýsingar sem eru félaginu nauðsynlegar vegna starfsemi þess, s.s. upplýsingar úr öryggiskerfum í húsnæði Ölgerðarinnar.

 

Ef þú starfar fyrir félagið sem áhrifavaldur vinnur félagið jafnframt með persónuupplýsingar af samfélagsmiðlum þínum og framkvæmir frammistöðumat í kjölfar herferðar á grundvelli lögmætra hagsmuna félagsins.

 

Upplýsingarnar koma að meginstefnu til beint frá þér, en þær kunna jafnframt að koma frá þriðja aðila, s.s. frá ráðgjafafyrirtækjum sem greina árangur herferða á samfélagsmiðlum. Félagið kann einnig að miðla persónuupplýsingum til sambærilegra ráðgjafafyrirtækja í þeim tilgangi að greina árangur samstarfs.

 

Upplýsingar um verktaka eru ekki varðveittar lengur en í 4 ár frá lokum verkefnis, nema um sé að ræða upplýsingar sem falla undir bókhaldslög og eru upplýsingar þá varðveittar í 7 ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Kjósi félagið að varðveita upplýsingar lengur um þá verktaka sem starfað hafa fyrir félagið er óskað eftir samþykki fyrir þeirri varðveislu.

 

7. Persónuupplýsingar sem Ölgerðin vinnur um neytendur

 

Ölgerðinni berast ýmsar fyrirspurnir og ábendingar frá neytendum, s.s. með tölvupósti og í gegnum Facebook síðu félagsins, sem innihalda persónuupplýsingar. Sendir þú ábendingu eða kvörtun til félagsins kunnum við að hafa lögmæta hagsmuni af því að varðveita tengiliðaupplýsingar þínar, s.s. nafn, símanúmer og netfang til að fylgja erindi þínu eftir og eftir atvikum bæta tjón eða galla á vöru.

 

Upplýsingar sem berast félaginu frá neytendum eru ekki varðveittar hjá félaginu lengur en í 4 ár frá því að erindið berst, nema ef erindið gefur til kynna að heilsutjón hafi orðið, en er þá tilefni til lengri varðveislu.

 

8. Persónuupplýsingar sem Ölgerðin vinnur um aðra tengiliði

 

Í starfsemi sinni safnar félagið jafnframt samskiptaupplýsingum ýmissa tengiliða, s.s. hjá þeim stofnunum og yfirvöldum sem félagið er í reglulegum samskiptum við. Er það gert á grundvelli lögmætra hagsmuna félagsins af því að einfalda samskipti, en upplýsingarnar eru uppfærðar og þeim eytt eftir því sem þörf er á hverju sinni.

 

9. Rafræn vöktun í húsnæði Ölgerðarinnar

 

Í öryggis- og eignavörsluskyni og á grundvelli lögmætra hagsmuna Ölgerðarinnar er notast við myndavélaeftirlit í húsnæði félagsins.  Vakin er athygli á notkun öryggismyndavéla með þar til gerðum merkjum.

 

Hafir þú, t.d. sem verktaki, aðgang að aðgangsstýrðum rýmum í húsnæði félagsins kann upplýsingum um ferðir þínar um húsnæðið einnig að vera safnað, í öryggis- og eignavörsluskyni.

 

Upplýsingar sem safnast með rafrænni vöktun eru ekki varðveittar lengur en í 90 daga.

 

10. Miðlun til þriðju aðila

 

Ölgerðin kann að miðla persónuupplýsingum þínum til þriðju aðila í tengslum við samningssamband þeirra við félagið. Sem dæmi kann upplýsingum um þig að vera miðlað til ráðgjafafyrirtækja vegna þjónustukönnunar, til innheimtuaðila vegna innheimtu skulda og til flutningsaðila vegna dreifingar á vöru.

 

Persónuupplýsingar þínar kunna jafnframt að vera afhentar þriðja aðila að því marki sem heimilað er eða krafist er á grundvelli viðeigandi laga eða reglna, s.s. til Tollstjóra og Ríkisskattstjóra vegna eftirlitshlutverks þeirra með áfengisframleiðslu- og innflutningi.

 

Einnig gæti persónuupplýsingum verið miðlað til þriðju aðila sem veita okkur upplýsingatækniþjónustu og aðra þjónustu sem tengist vinnslu og er hluti af rekstri félagsins. Þessir aðilar kunna að vera staðsettir utan Íslands. Ölgerðin mun þó ekki miðla persónuupplýsingum utan Evrópska efnahagssvæðisins nema slíkt sé heimilt á grundvelli viðeigandi persónuverndarlöggjafar, s.s. á grundvelli staðlaðra samningsskilmála, samþykki þíns eða auglýsingar Persónuverndar um ríki sem veita persónuupplýsingum fullnægjandi vernd.

 

Að lokum gætu persónuupplýsingar um þig verið afhentar að því marki sem heimilað er eða krafist er á grundvelli viðeigandi laga eða reglna eða til að bregðast við löglegum aðgerðum eins og húsleitum, stefnum eða dómsúrskurði.

 

11. Hvernig er öryggi persónuupplýsinga tryggt?

 

Ölgerðin leitast við að grípa til viðeigandi tæknilegra og skipulegra ráðstafana til að vernda persónuupplýsingar með sértöku tilliti til eðlis þeirra. Þessum ráðstöfunum er ætlað að vernda persónuupplýsingar gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi, afritun, notkun eða miðlun þeirra. Dæmi um öryggisráðstafanir sem Ölgerðin grípur til eru aðgangsstýringar í kerfum félagsins.

 

12. Breytingar og leiðréttingar á persónuupplýsingum

 

Það er mikilvægt að þær persónuupplýsingar sem Ölgerðin vinnur með séu bæði réttar og viðeigandi. Því er mikilvægt að félaginu sé tilkynnt um allar breytingar sem kunna að verða á persónuupplýsingum þínum.

 

Þú átt rétt á því að óáreiðanlegar persónuupplýsingar um þig séu leiðréttar. Að teknu tilliti til tilgangs vinnslu persónuupplýsinga átt þú jafnframt rétt á að láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar um þig, þ.m.t. með því að leggja fram frekari upplýsingar.

 

Vinsamlega beindu öllum uppfærslum til upplýsingatæknistjóra.

 

13. Réttindi þín hvað varðar þær persónuupplýsingar sem félagið vinnur

 

Þú átt rétt á að fá staðfest hvort við vinnum persónuupplýsingar um þig eða ekki, og ef svo er getur þú óskað eftir aðgangi að upplýsingunum og hvernig vinnslunni er hagað. Þá kann einnig að vera að þú hafir rétt á að fá afrit af upplýsingunum. Við ákveðnar aðstæður getur þú farið fram á það við félagið að við sendum upplýsingar, sem þú hefur sjálf/ur látið okkur í té eða stafa frá þér, beint til þriðja aðila.

 

Við ákveðnar aðstæður getur þú óskað eftir því að persónuupplýsingum um þig verði eytt án tafar, til að mynda þegar að varðveisla upplýsinganna er ekki lengur nauðsynleg miðað við tilgang vinnslunnar eða vegna þess að þú hefur afturkallað samþykki þitt fyrir vinnslu persónuupplýsinganna og engin önnur heimild liggur til grundvallar henni.

 

Viljir þú ekki láta eyða upplýsingum þínum, t.d. vegna þess að þú þarft á þeim að halda til að verjast kröfu, en vilt samt sem áður að þær séu ekki unnar frekar af hálfu félagsins getur þú óskað eftir því að vinnsla þeirra verði takmörkuð.

 

Sé vinnsla á persónuupplýsingum þínum byggð á lögmætum hagsmunum félagsins átt þú einnig rétt á að mótmæla þeirri vinnslu.

 

Framangreind réttindi þín eru þó ekki fortakslaus. Þannig kunna lög að skylda félagið til að hafna ósk um eyðingu eða aðgang að gögnum. Þá getur félagið hafnað beiðni þinni vegna réttinda félagsins, s.s. á grundvelli hugverkaréttar, eða réttinda annarra aðila, s.s. til friðhelgi einkalífs, telji félagið þau réttindi vega þyngra.

 

Ef upp koma aðstæður þar sem að félagið getur ekki orðið við beiðni þinni mun félagið leitast við að útskýra hvers vegna beiðninni hefur verið hafnað, þó með tilliti til takmarkana á grundvelli lagaskyldu.

 

14. Fyrirspurnir og kvörtun til Persónuverndar

 

Ef þú vilt nýta þér þau réttindi sem lýst er í 13. gr. í stefnu þessari, eða ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi persónuverndarstefnu þessa eða það hvernig félagið vinnur með persónuupplýsingar þínar, vinsamlegast hafðu samband upplýsingatæknistjóra.

 

Ef að þú ert ósátt/ur við vinnslu félagsins á persónuupplýsingum getur þú sent erindi til Persónuverndar (www.personuvernd.is).

 

15. Samskiptaupplýsingar

 

Við höfum tilnefnt upplýsingatæknistjóra til að hafa umsjón með eftirfylgni þessarar persónuverndarstefnu. Hér fyrir neðan má finna samskiptaupplýsingar hans:

 

[personuvernd@olgerdin.is]

 

Samskiptaupplýsingar um félagið:

 

Ölgerðin Egill Skallagríms hf.

Grjóthálsi 7-11

110 Reykjavík

 

16. Endurskoðun

 

Ölgerðin getur frá einum tíma til annars breytt persónuverndarstefnu þessari í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum eða reglugerðum eða vegna breytinga á því hvernig félagið vinnur með persónuupplýsingar.

 

Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á stefnunni taka gildi eftir að uppfærð útgáfa hefur verið birt á heimasíðu félagsins.  

 

Þessi persónuverndarstefna var sett þann 15.05.2018.

Persónuverndarstefna - umsækjendur um störf

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. hefur einsett sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga umsækjenda um störf hjá félaginu. Persónuverndarstefnu þessari er ætlað að upplýsa umsækjendur um hvaða persónuupplýsingar félagið safnar og með hvaða hætti félagið nýtir slíkar persónuupplýsingar.

 

Persónuverndarstefna þessi nær til persónuupplýsinga er varða alla þá sem sækja um störf hjá Ölgerðinni. Í stefnunni er jafnframt vísað til umsækjenda sem „þín“ og félagsins sem „okkar“.

 

1. Tilgangur og lagaskylda

 

Ölgerðin leitast við að uppfylla í hvívetna persónuverndarlöggjöf og er stefna þessi byggð á lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga („persónuverndarlög“).

 

2. Hvað eru persónuupplýsingar?

 

Persónuupplýsingar í skilningi stefnu þessarar eru hvers kyns upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling, þ.e. upplýsingar sem hægt er að rekja beint eða óbeint til ákveðins einstaklings. Gögn sem eru ópersónugreinanleg teljast ekki persónuupplýsingar.

 

3. Persónuupplýsingar sem Ölgerðin safnar og vinnur

 

Við söfnum og varðveitum ýmsar persónuupplýsingar um umsækjendur og fer vinnsla og söfnun að hluta til eftir eðli þess starfs sem sótt er um.

 

Eftirfarandi eru dæmi um upplýsingar sem Ölgerðin safnar um umsækjendur:

 

 • samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer og tölvupóstfang;
 • starfsumsóknir;
 • ferilskrár og upplýsingar um menntun, þjálfun og starfsreynslu;
 • upplýsingar frá meðmælendum og ráðningarskrifstofum eftir atvikum; og
 • upplýsingar úr starfsviðtölum.

 

Auk framangreindra upplýsinga kann Ölgerðin einnig að safna og vinna aðrar upplýsingar sem þú lætur félaginu í té í umsóknarferlinu.

 

Að meginstefnu til aflar Ölgerðin persónuupplýsinga beint frá þér. Í þeim tilvikum þar sem  persónuupplýsinga er aflað frá þriðja aðila mun félagið leitast við að upplýsa þig um slíkt.

 

Ef til þess kemur að þér verði boðið starf hjá félaginu kann félagið að óska eftir afriti af eða upplýsingum úr sakavottorði, afriti af ökuskírteini, lyftaraprófi og prófskírteini þínu í tengslum við nánar tiltekin störf, áður en gengið er frá ráðningarsamningi.

 

4. Hvers vegna söfnum við persónuupplýsingum og á hvaða grundvelli?

 

Við söfnum persónuupplýsingum um umsækjendur fyrst og fremst til að leggja mat á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir.

 

Þær persónuupplýsingar sem við vinnum með um þig eru unnar í tengslum við umsókn þína um starf hjá félaginu, þ.e. á grundvelli beiðni þinnar um að gera samning við félagið.

 

Í afmörkuðum tilvikum kunnum við að afla samþykkis frá þér til að vinna með nánar tilgreindar upplýsingar, í tengslum við varðveislutíma þeirra upplýsinga sem þú afhendir okkur eða varðandi afhendingu á umsókn þinni til dótturfélaga Ölgerðarinnar. Í slíkum tilvikum er þér ávallt heimilt að afturkalla samþykki þitt.

 

Það skal tekið fram að veitir þú Ölgerðinni ekki umbeðnar upplýsingar í ráðningarferli getur það leitt til þess að félagið getur ekki ráðið þig til starfa.

 

5. Aðgangur að persónuupplýsingum og miðlun til þriðju aðila

 

Aðgangur að upplýsingum um umsækjendur takmarkast við mannauðsdeild Ölgerðarinnar og stjórnendur og yfirmenn þess starfs sem sótt er um.

 

Ölgerðin kann að miðla persónuupplýsingum um umsækjendur til umsagnaraðila eða ráðningarskrifstofa í tengslum við ráðningarferlið. Þá skal tekið fram að Ölgerðin nýtir sér vinnsluaðila í tengslum við upplýsingatækniþjónustu þar sem persónuupplýsingar þínar kunna að vera hýstar eða gerðar aðgengilegar vegna slíkrar þjónustu.

 

Ölgerðin mun ekki miðla persónuupplýsingum utan Evrópska efnahagssvæðisins nema slíkt sé heimilt á grundvelli viðeigandi persónuverndarlöggjafar.

 

6. Hvernig er öryggi persónuupplýsinga tryggt?

 

Ölgerðin leitast við að grípa til viðeigandi tæknilegra og skipulegra ráðstafana til að vernda persónuupplýsingar þínar. Þessum ráðstöfunum er ætlað að vernda persónuupplýsingar gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi, afritun, notkun eða miðlun þeirra.

 

Umsóknir og önnur gögn tengd ráðningarferlinu sem geymd eru á rafrænu formi eru vistaðar í tölvukerfi Ölgerðarinnar sem er aðgangsstýrt og gögn á pappírsformi eru vistuð í læstum skápum.

 

7. Varðveisla á persónuupplýsingum

 

Er sex mánuðir eru liðnir frá því að umsóknarfresti lauk fyrir það starf sem sótt var um, eða þeim tíma er þú sendir inn almenna umsókn, mun Ölgerðin eyða persónuupplýsingum þínum verði ekki af ráðningu. Ölgerðin kann hins vegar að óska eftir samþykki þínu fyrir lengri varðveislutíma.

 

Verði af ráðningu mun Ölgerðin flytja persónuupplýsingar þínar í rafræna starfsmannamöppu  hjá félaginu og um þá vinnslu er kveðið í sérstakri stefnu félagsins.

 

8. Breytingar og leiðréttingar á persónuupplýsingum

 

Það er mikilvægt að þær persónuupplýsingar sem Ölgerðin vinnur með séu bæði réttar og viðeigandi. Á meðan á umsóknarferlinu stendur er því mikilvægt að þú tilkynnir Ölgerðinni um allar breytingar sem kunna að verða á þeim persónuupplýsingum sem þú hefur látið okkur í té.

 

Vinsamlega beinið öllum uppfærslum til mannauðsdeildar félagsins.

 

9. Réttindi þín hvað varðar þær persónuupplýsingar sem félagið vinnur

 

Þú átt rétt á að fá aðgang og í ákveðnum tilvikum afrit af þeim persónuupplýsingum sem Ölgerðin vinnur um þig sem og upplýsingar um vinnsluna.

 

Við ákveðnar aðstæður kannt þú jafnframt að hafa heimild til að óska eftir því að persónuupplýsingum um þig verði eytt eða að vinnsla þeirra verði takmörkuð. Þá átt þú rétt á að fá persónuupplýsingar þínar leiðréttar, séu þær rangar.

 

Auk þess kann að vera að þú eigir rétt á afriti af þeim upplýsingum sem þú hefur afhent Ölgerðinni á tölvutæku formi, eða að við sendum þær beint til þriðja aðila.

 

Ofangreind réttindi þín eru þó ekki fortakslaus. Þannig kunna lög eða reglugerðir að heimila eða skylda félagið til að hafna beiðni þinni um að nýta þér umrædd réttindi.

 

10. Fyrirspurnir umsækjenda og kvörtun til Persónuverndar

 

Ef þú vilt nýta þér þau réttindi sem lýst er í 9. gr. í stefnu þessari, eða ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi persónuverndarstefnu þessa eða það hvernig félagið vinnur með persónuupplýsingar þínar, vinsamlegast hafðu samband við upplýsingatæknistjóra.

 

Ef að þú ert ósátt/ur við vinnslu félagsins á persónuupplýsingum getur þú sent erindi til Persónuverndar (www.personuvernd.is).

 

11. Samskiptaupplýsingar

 

Við höfum tilnefnt upplýsingatæknistjóra til að hafa umsjón með eftirfylgni þessarar persónuverndarstefnu. Hér fyrir neðan má finna samskiptaupplýsingar hans:

 

[personuvernd@olgerdin.is]

 

Samskiptaupplýsingar félagsins:

 

Ölgerðin Egill Skallagríms hf.

Grjóthálsi 7-11

110 Reykjavík

 

12. Endurskoðun

 

Ölgerðin getur frá einum tíma til annars breytt persónuverndarstefnu þessari í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum eða reglugerðum eða vegna breytinga á því hvernig félagið vinnur með persónuupplýsingar. Uppfærð útgáfa af stefnunni verður birt á umsóknarvef Ölgerðarinnar eða kynnt á annan sannanlegan hátt.

 

Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á stefnunni taka gildi eftir að uppfærð útgáfa hefur verið birt á umsóknarvef Ölgerðarinnar.

Umhverfisstefna

Markmið

 

Ölgerðin stefnir að lágmörkun áhrifa starfseminnar á umhverfið og að ná sífellt betri árangri í umhverfisvernd í daglegum rekstri fyrirtækisins.

 

Ábyrgð

 

Forstjóri Ölgerðarinnar er ábyrgur fyrir viðhaldi og endurskoðun stefnunnar. Forstjóri ber ábyrgð á því að kynna stefnuna fyrir starfsmönnum.

 

Sérhver starfsmaður Ölgerðarinnar framfylgir umhverfisstefnunni og hefur hana að leiðarljósi í öllu starfi sínu og sýnir gott fordæmi.

 

Framkvæmd

 

Stefna Ölgerðarinnar í umhverfismálum er að vinna stöðugt að endurbótum með það að markmiði að lágmarka áhrif fyrirtækisins á umhverfið.

 

Þetta gerum við með því að:

 

 • Uppfylla lög og reglugerðir um umhverfismál og að tryggja að starfsmenn séu meðvitaðir um mikilvægi verndunar umhverfisins í aðgerðum sínum.
 • Flokka allt sorp sem fellur til og lágmarka notkun á rekstrar og skrifstofuvörum.
 • Forðast alla sóun við meðhöndlun og notkun hráefna og umbúða. Endurnota og endurvinna það sem fellur til í rekstri eins og hægt er og farga öðru á viðeigandi hátt.
 • Leitast við að nota efni, rekstrarvörur og umbúðir sem eru umhverfisvænar, aldrei þó á kostnað öryggis framleiðsluvara Ölgerðarinnar.
 • Mengunarvarnir fyrirtækisins séu í samræmi við lög og reglugerðir og þess sé gætt við allar breytingar og nýbyggingar taki mið af líklegum framtíðarkröfum á þessu sviði.
 • Leita stöðugt leiða til að minnka notkun umbúða, orku og vatns við framleiðslu, sölu og dreifingu vara fyrirtækisins.
 • Fyrsti kostur við endurnýjun fólksbíla í eigu fyrirtækisins verði vistvænn
 • Kolefnisjafna rekstur Ölgerðarinnar.

 

Stefnur, gildi og gæðamarkmið fyrirtækisins eru yfirfarin að minnsta kosti árlega auk þess sem farið er yfir helstu úrbótaverkefni síðasta árs og niðurstöður þeirra. Yfirferð fer fram á fundi gæðaráðs.

 

Forstjóri tryggir að yfirferðin fari fram. 

Vafrakökustefna

Vefsíða Ölgerðarinnar notar vafrakökur (e. cookies) til að tryggja sem bestu upplifun af síðunni fyrir notendur. 

 

Stefnu þessari er ætlað að upplýsa notendur um það hvað vafrakaka er, hvernig félagið notar vafrakökur og hvernig þú getur stjórnað notkun á vafrakökum. 

 

1. Hvað er vafrakaka?

 

Vafrakökur eru  litlar textaskrár sem vefsvæðið getur sett inn á tölvuna þína eða önnur snjalltæki þegar vefsíða Ölgerðarinnar er heimsótt. Vafrakökur gera vefsvæðum kleift að þekkja tölvur notenda og því er vafrakaka eins konar stafrænt merki sem man hvar þú hefur verið á netinu. 

 

Gerður er greinarmunur á setukökum og viðvarandi vafrakökum. Setukökur gera vefsvæðinu kleift að tengjast aðgerðum notanda á meðan hann er á vefsvæðinu. Setukökur eyðast almennt þegar notandi fer af vefsvæðinu og eru því ekki vistaðar til lengri tíma. Viðvarandi vafrakökur vistast á tölvu notanda og muna þannig val eða aðgerðir notenda á vefsvæðinu. Ölgerðin notast bæði við setukökur og viðvarandi vafrakökur.

 

Þá er vafrakökur ýmist fyrstu aðila kökur eða þriðju aðila kökur. Það ræðst af léni vefsvæðisins sem gerir vafrakökuna hvort hún telst fyrsta- eða þriðja aðila vafrakaka. Fyrstu aðila vafrakökur eru í grundvallaratriðum vafrakökur sem verða til á því vefsvæði sem notandi heimsækir. Þriðju aðila vafrakökur eru þær vafrakökur sem verða til á öðru léni en því sem notandi heimsækir. 

 

Frekari upplýsingar um vafrakökur má finna á eftirfarandi vefsíðu um vafrakökur: www.allaboutcookies.org.  

 

2. Vafrakökur sem Ölgerðin notar á vefsíðu sinni

 

Ölgerðin notast við eftirfarandi vafrakökur á vefsíðu sinni, www.olgerdin.is, í eftirfarandi tilgangi:

 

Tölfræðikökur (e. statistics): Tölfræðikökur eru notaðar til að greina umferð og notkun í gegnum síðuna. [11.6.18] 

 

Markaðskökur (e. marketing): Engar kökur eru notaðar til að bjóða upp á sérsniðnar auglýsingar. Ölgerðin safnar engum upplýsingum í markaðslegum tilgangi. [11.6.18]   

 

Í netverslun Ölgerðarinnar er auk þess notast við eftirfarandi vafrakökur:

 

Nauðsynlegar kökur (e. necsessary): Eru ómissandi til að vefsíðan virki eins og ætlast er til.  [11.6.18]

 

Valkostakökur (e. preference): [11.6.18]

 

Félagið notast m.a. við kökur frá Google Analytics og í gegnum þær kökur hefur Google aðgang að þeim upplýsingum sem kökurnar safna, þ.á m. IP tölum notenda. Google kemur þannig fram sem vinnsluaðili fyrir hönd Ölgerðarinnar í skilningi persónuverndarlaga. 

 

Á vefsvæði Ölgerðarinnar eru einnig þriðja aðila kökur.

 

3. Grundvöllur vinnslu – hvernig hægt er að slökkva á kökum 

 

Vinnsla þeirra persónuupplýsinga sem safnast með nauðsynlegum kökum er byggð á lögmætum hagsmunum Ölgerðarinnar, endar virkja þær kökur eiginleika sem verða að vera til staðar til að hægt sé að nota vefsvæðið eins og til er ætlast.

 

Vinnsla þeirra persónuupplýsinga sem safnast með notkun á öðrum vafrakökum er hins vegar byggð á samþykki þínu. Þegar þú heimsækir vefsvæðið í fyrsta skipti birtist borði þar sem þú ert beðin/n um að samþykkja þær vafrakökur sem félagið notast við.

 

Þú getur hvenær sem er afturkallað þetta samþykki þitt með því að loka á kökur á vefsíðunni eða eyða þeim úr vafra þínum. Það kann hins vegar að hamla virkni síðunnar að einhverju leyti.

 

Það er mismunandi milli netvafra hvernig breyta á vefkökum, en nánari upplýsingar má nálgast á eftirfarandi tenglum:

 

 

Notir þú aðra vafra ættir þú að geta fundið upplýsingar um stillingar á vafrakökum á vefsíðu vafrans. 

 

Þá er hægt að slökkva á notkun á vafrakökum Google Analytics með því að ýta á þennan tengil: https://tools.google.com/dlpage/gaoptout. 

 

4. Varðveislutími vefkaka

 

Flestar af vafrakökum þeim sem Ölgerðin notar eru setukökur en þær eyðast þegar notandi fer af vefsvæðinu.

 

5. Nánari upplýsingar um persónuvernd – uppfærslur 

 

Félagið getur frá einum tíma til annars breytt stefnu þessari í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum eða vegna breytinga á því hvernig félagið notast við vefkökur. 

 

Nánari upplýsingar um meðferð á persónuupplýsingum má finna í persónuverndarstefnu félagsins, sem aðgengileg er hér. 

Siðareglur Ölgerðarinnar

Siðareglurnar eru hornsteinn í starfsemi Ölgerðinnar, þær byggja á gildum fyrirtækisins og gilda fyrir alla starfsmenn, umboðsmenn og aðra sem koma fram fyrir hönd Ölgerðarinnar.

Yfirstjórn og stjórnendum ber að sýna gott fordæmi og fylgja þessum reglum í hvívetna ásamt því að kynna þær vel fyrir sínu starfsfólki.

Siðareglurnar eru skrifaðar frá sjónarhorni starfsmanna og eru ætlaðar til að leiðbeina okkur við dagleg störf. Þær eru ekki tæmandi listi heldur frekar greinargóður rammi sem við getum nýtt okkur ásamt okkar bestu dómgreind þegar álitamál koma upp.

 

Jákvæðni

Við erum eitt lið með sterka liðsheild sem leggur sig fram um að búa til góðan og uppbyggjandi starfsanda. Við sýnum hvort öðru virðingu, sanngirni og tökum tillit til allra sjónarmiða.

Við gætum jafnræðis í störfum okkar og mismunum fólki aldrei vegna kyns, kyngervis, kynhneigðar, kynvitundar, kynferðis, kynþáttar, , stjórnmálaskoðana, trúar eða annarra  ómálefnalegra þátta.

Við tökum ekki með nokkrum hætti þátt í einelti, kynbundinni- og kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi og upplýsum um slíka hegðun ef við verðum vör við slíkt.

Við tökum öllum ábendingum frá viðskiptavinum af jákvæðni og notum þær til að bæta þjónustuna

 

Áræðanleiki

Við fylgjum í hvívetna öllum lögum og reglum sem okkur snerta . Við erum heiðarlegt keppnisfólk sem keppir af krafti og styður frjálsa samkeppni.

Við gerum okkur grein fyrir því að orðspor Ölgerðarinnar er mikilvægasta eign fyrirtækisins og við leggjum okkur fram við að vernda og bæta það.

Við gætum þess að upplýsingar sem við veitum séu eins réttar og nákvæmar og kostur er. Við fullyrðum ekki meira en vitneskja okkar gefur tilefni til hverju sinni, heldur viðurkennum hvenær þekking okkar er takmörkuð, öflum okkur upplýsinga, eða vísum fyrirspurnum til viðeigandi aðila. Viðskiptavinir og samstarfsaðilar geta treyst okkur.

 

Hagkvæmni

Við látum ekki persónulega hagsmuni hafa áhrif á störf okkar fyrir Ölgerðina.

Við tilkynnum allar boðsferðir eða gjafir sem okkur eru boðnar til yfirmanns og fáum samþykki ef vilji er fyrir að þiggja. Við tilkynnum til yfirmanns öll eigna-eða venslatengsl við viðskiptavini eða birgja. Við tökum ekki ákvarðanir í starfi sem tengjast á einhvern hátt ættingjum eða maka.

Við þiggjum hvorki né bjóðum gjafir, greiða eða aðra umbun sem er til þess fallin að hafa áhrif á sjálfstæði eða hlutleysi viðkomandi.

 

Framsækni

Við sýnum frumkvæði og þorum að taka áhættu þegar það á við. Við lærum af mistökum og ætlum alltaf að vera feti framar í þjónustu, nýjungum og vöruúrvali.

Við leggjum okkur fram um að styðja og efla menningu sem byggir á jafnrétti, fjölbreytileika og gagnkvæmri virðingu.

Við höfum sjálfbærni að leiðarljósi, forðumst sóun og leitumst við að starfa af ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu.

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að tryggja sem besta upplifun fyrir notendur. Ef þú heldur áfram notkun þinni á síðunni samþykkir þú vafrakökustefnu okkar. Lesa nánar um vafrakökustefnu Ölgerðarinnar hérna